Erlent

Bretar sam­þykkja sölu dýrafóðurs úr ræktaðri kjöt­vöru

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Við notum aðeins eggið og ekkert annað, auglýsir Meatly.
Við notum aðeins eggið og ekkert annað, auglýsir Meatly.

Yfirvöld á Bretlandseyjum hafa veitt fyrirtækjunum Meatly og Omni heimild til að framleiða og selja dýrafóður sem er unnið úr kjöti sem hefur verið ræktað á tilraunastofu.

Samkvæmt Guardian er um að ræða fyrstu kjötvöruna sem ræktuð er á tilraunastofu til að rata á markað í Evrópu.

Um er að ræða kjúklingakjöt sem hefur verið ræktað með því að taka sýni úr hænueggi og rækta frumurnar í svipuðum búnaði og notaður er til að gerja bjór. Í framleiðsluferlinu er vítamínum og amínósýrum bætt við og útkoman er kjötvara sem líkist kæfu.

Meatly og Omni segjast gera ráð fyrir að setja vöruna á markað á þessu ári og einbeita sér svo að því að stækka við sig og auka framleiðsluna á næstu árum. Talið er að það muni hugnast mörgum dýraeigendum- og vinum að geta keypt dýrafóður sem er unnið úr frumum, frekar en dýrahræjum.

Breskir sérfræðingar segja að frekari rannsókna sé þörf áður en hægt verður að samþykkja framleiðslu og sölu ræktaðra kjötvara sem ætlaðar eru mönnum. Hins vegar hafa nokkur önnur ríki, þeirra á meðal Ísrael og Singapore, þegar heimilað sölu slíkra vara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×