Handbolti

Misstu af undan­úr­slitunum eftir tap í úr­slita­leik við Spán­verja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir réðu ekki alveg við sterkt spænskt landslið í dag.
Strákarnir réðu ekki alveg við sterkt spænskt landslið í dag. @hsi_iceland

Íslenska tuttugu ára landslið karla í handbolta tókst ekki að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í lokaleik sínum í milliriðlinum í Slóveníu í dag.

Spánverjar voru mun sterkari og unnu sjö marka sigur, 37-30, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 18-16.

Portúgalar voru búnir að tryggja sér sæti í undanúrslitunum en ljóst var að sigurvegari leiksins í dag myndi fylgja þeim í leiki um verðlaun. Tapið þýðir að íslenska liðið spilar um fimmta til áttunda sætið á mótinu.

Portúgal og Spánn spila í undanúrslitum keppninnar en Ísland og Austurríki geta ekki endað ofar en í fimmta sæti.

Framarinn Reynir Þór Stefánsson var langatkvæðamestur í íslenska liðinu með ellefu mörk úr fjórtán skotum en Haukamaðurinn Össur Haraldsson skoraði sex mörk. Annar Haukamaður, Birkir Snær Steinsson, skoraði fimm mörk.

Spánverjar voru fimm mörkum yfir, 12-7, um miðjan fyrri hálfleik en íslensku strákunum tókst að jafna metin í 13-13 með frábærum kafla.

Spænska liðið var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 18-16, en það munaði bara einu marki á liðunum, 22-21, eftir átta mínútna leik í seinni hálfleik.

Þá kom slæmur kafli hjá íslenska liðinu sem Spánverjar unnu 6-2 og slitu sig frá íslensku strákunum.

Spænska liðið komst mest sjö mörkum yfir og vann að lokum með sjö mörkum eftir að hafa skorað þrjú síðustu mörk leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×