Upp­gjörið: Vllaznia - Valur 0-4 | Svona á að svara fyrir sig

Valur Páll Eiríksson skrifar
Valsmenn léku á als oddi í kvöld.
Valsmenn léku á als oddi í kvöld. Vísir/Diego

Valsmenn gerðu allt rétt er þeir fóru örugglega áfram í næstu umferð í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld. Valur vann 4-0 sigur á Vllaznia frá Albaníu ytra.

Það var með kvíðahnút í maga sem maður fylgdist með Valsmönnum halda til Albaníu að leika síðari leik einvígis þess við Vllaznia. Það gekk á ýmsu á Hlíðarenda fyrir viku síðan og hafði fæst að gera með fótbolta. Hráka á dómara, barsmíðar og morðhótanir meðal annars.

Dagana eftir 2-2 jafnteflið í fyrri leiknum áttu Valsmenn fundi um allar trissur, með fulltrúum KSÍ, UEFA og lögreglunnar þar sem þeir óttuðust um öryggi leikmanna sinna og starfsfólks.

Það var þó ekki að sjá á leikmönnum liðsins sem mættu sem óðir menn til leiks. Albanarnir voru pressaðir stíft í upphafi, komust vart yfir miðju og þegar korter var liðið leiddi Valur 2-0.

Guðmundur Andri Tryggvason átti stóran hlut í fyrra markinu sem Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði með laglegri afgreiðslu á tólftu mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Guðmundur Andri úr teignum eftir sendingu Jónatans Inga Jónssonar.

Guðmundur Andri átti frábæran leik í kvöld.Vísir/Anton Brink

Þriðja mark Vals skoraði Patrick Pedersen eftir ævintýralegan vandræðagang á varnarmönnum Vllaznia. Útspark Frederiks Schram fór yfir allan völlinn, og Patrick stakk sér milli varnarmanns og markmanns til að pota boltanum í netið.

Staðan 3-0 fyrir Val í hálfleik.

Verkinu var ekki lokið þrátt fyrir þá stöðu. Við sáum Breiðablik fá á sig þrjú mörk á tíu mínútna kafla við álíka aðstæður í Makedóníu í síðustu viku þar sem þreyta í þrjátíu gráðu hita gerði vart við sig.

Valsmenn nálguðust síðari hálfleikinn hins vegar fagmannlega og var aldrei að sjá að þeir albönsku hefðu trú á því að þeir gætu jafnað.

Arnar Grétarsson gerði þá þrefalda skiptingu á 64. mínútu til að dreifa álaginu. Einn þeirra sem kom inn á var Tryggvi Hrafn Haraldsson.

Gylfi átti geggjaða sendingu á Tryggva sem rak síðasta naglann í kistu Vllaznia.Vísir/Diego

Tryggvi hafði aðeins verið á vellinum í um tvær mínútur þegar Gylfi Þór Sigurðsson átti stórglæsilega 50 metra langa sendingu, viðstöðulausa frá miðjum vallarhelmingi Vals, inn fyrir vörn Vllaznia á Tryggva Hrafn. Hann tók eina, tvær snertingar og vippaði boltanum svo huggulega yfir markvörðinn.

Fyrir leik slepptu menn í stúkunni hvítum dúfum sem maður vonaðist til að væri til marks um friðsamlegri framkomu. Vllaznia menn réðu hins vegar ekki við sig og undir lokin þurfti að stöðva leik þar sem fjölda blysa var fleygt inn á völlinn. Vænasta sekt á leiðinni þar.

Valsmenn gerðu aftur á móti allt rétt. Eftir allt havaríið utan vallar svöruðu þeir svöruðu fyrir sig innan vallar. Þeir fara örugglega áfram í næstu umferð. 4-0 sigur niðurstaðan.

Fram undan einvígi við St. Mirren frá Skotlandi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira