Erlent

Ó­hugnan­leg færsla Crooks í að­draganda á­rásarinnar senni­lega fölsuð

Jón Þór Stefánsson skrifar
Donald Trump skömmu eftir að hann var skotinn í eyrað.
Donald Trump skömmu eftir að hann var skotinn í eyrað. Getty

Greint var frá því fyrr í dag að Thomas Matthew Crooks, maðurinn sem reyndi að skjóta Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta um síðustu helgi hefði skrifað færslu sem virðist, eftir á að hyggja, gefa árásina til kynna. Núna er hins vegar talið að færslan sé fölsuð.

Uppfært 17:27

Samkvæmt uppfærðri frétt CNN er talið að færslan sé fölsuð. Talið er að nafni aðgangsins á Steam hafi verið breytt.

„13. júlí verður frumsýningin mín. Fylgist með þegar hulunni verður svipt af henni,“ skrifaði Crooks á Steam, vinsælu markaðstorgi tölvuleikjaspilara, í aðdraganda árásarinnar.

CNN greinir frá þessu, en nákvæm tímasetning færslunnar liggur ekki fyrir, né hvort aðrar sambærilegar færslur hafi verið að finna.

Þess má geta að árásin var framin 13. júlí, líkt og gefið er til kynna í færslunni. Einn lést og tveir særðust að Trump undanskildum.

Þeir sem rannsaka nú árásina eru að reyna að komast til botns í því hvað Crooks var að gera dagana og klukkustundirnar fyrir árásina. Hann er sagður hafa heimsótt vettvang kosningafundar Trump við bæinn Butler í Pennsylvaníu-ríki.

Í símanum hans hafi fundist bæði myndir af Trump og Joe Biden núverandi Bandaríkjaforseta. Þá hafi Crooks, samkvæmt leitarsögu síma hans, leitað að dagsetningum stórra viðburða Demókrataflokksins og viðburða á vegum Trumps.

CNN segir að rannsakendur eigi þó enn eftir að komast að sjálfri ástæðu árásarinnar.


Tengdar fréttir

Bandaríkjaforsetar skotmörk blóðugra banatilræða

Athygli heimsbyggðarinnar beindist að Bandaríkjunum um helgina þegar fréttir bárust af skotárás í Pennsylvaníuríki þar sem Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og núverandi forsetaframbjóðandi, var skotmarkið. Trump var skotinn í eyrað en slapp nokkuð vel, en ekki mátti miklu muna á því að hann hefði hlotið bana af.

Grunaður árásarmaður hét Thomas Matthew Crooks

Maðurinn sem er grunaður um að hafa skotið að Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta í gær hét Thomas Matthew Crooks og var tvítugur. Leyniþjónusta Bandaríkjanna drap Crooks skömmu eftir að hann hleypti af nokkrum skotum sjálfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×