Páll Magnús Guðjónsson, eða Palli í Mörk er mikill vinnuhestur því hann er alltaf með einhver skemmtileg verkefni í gangi. Nú eru það dvergastyttur Eyjamanna, sem eiga hug hans allan en Hraunbúðir, heimilið, sem hann býr á, auglýsti eftir styttum frá Eyjamönnum, sem þyrfti að laga og mála og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Nú er Palli búin að mála og laga yfir 40 dvergastyttur.
„Þetta heldur lífinu í manni, það er ekkert öðruvísi. Þetta er alveg dásamlegt, alveg dásamlegt, það er ekkert hægt að orða það öðruvísi,“ segir Palli alsæll.
Og Palli er mjög vandvirkur í öllu, sem hann gerir.
„Það er ekkert gaman öðruvísi. Það er bara verst að ég gleyma alltaf gleraugunum inn í herbergi, ég nota aldrei gleraugu,“ segir Palli og skellihlær.
Og í Hraunbúðum, sem er dvalar- og hjúkrunarheimili má víða sjá dverga, sem Palli á heiðurinn af og á útipallinum við heimilið er fullt af fallegum dvergastyttum í sérstöku dvergalandi. En það er ýmislegt fleira gera á heimilinu.

„Já, við erum til dæmis búin að perla öll nöfnin á íbúum og merkja allar dyr hjá okkur hérna með þeim,“ segir Sonja Andrésdóttir, tómstunda og virknifulltrúi í Hraunbúðum og bætir við.
„Gamla fólkið er best í heimi, það er bara svoleiðis, það gefur manni helling,“ og Palli skýtur inn í. „Sonja á sér engan sér líka, hún er að standa sig svo vel.“
En hvernig er að vera roskinn eldri borgari í Vestmannaeyjum?
„Alveg dásamlegt, hérna er allt af öllu, þetta er besti staður í heimi,“ segir Palli.
En ætlar hann að fara á þjóðhátíð?
„Að sjálfsögðu, í fyrra var ég allar næturnar til klukkan þrjú um nóttina.“
