Upp­gjörið: Fylkir 4 - Tinda­stóll 1 | Fyrsti sigur Fylkis síðan á vor­dögum

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Fylkiskonur fagna marki í dag
Fylkiskonur fagna marki í dag Vísir/HAG

Fylkir fékk Tindastól í heimsókn í dag í 13. umferð Bestu deildar kvenna. Unnu heimakonur stórsigur, 4-1, og gerðu í leiðinni botnbaráttuna enn meira spennandi.

Gestirnir byrjuðu töluvert betur og hápressuðu Fylkiskonur sem reyndu að spila sig úr pressunni.

Á 10. mínútu kom fyrsta mark leiksins. Tindastóll komst þá í hraða sókn þar sem Elísa Bríet Björnsdóttir fékk boltann á hægri kantinum og kom honum fyrir á Jordyn Rhodes. Tók hún boltann niður með bringunni og læddi honum svo fram hjá Tinnu Brá Magnúsdóttur, markverði Fylkis. Sjöunda mark Jordyn Rhodes í Bestu deildinni í sumar.

Jordyn Rhodes skorar fyrsta mark leiksinsVísir/HAG

Eins undarlega og það kann að hljóða valdefldist botnlið Fylkis við það að fá mark á sig. Liðið kom sér hægt og bítandi betur inn í leikinn og byrjaði að ógna við mark gestanna.

Á endanum skoraði Abigail Boyan fyrir heimakonur, á 38. mínútu. Fékk hún þá boltann á miðjum vallarhelmingi Tindastóls og óð fram völlinn. Endaði það með því að hún lét vaða á markið á vítateigslínunni og boltinn söng í netinu.

Abigail Patricia Boyan skoraði jöfnunarmark FylkiskvennaVísir/HAG

æði liðin fengu sitthvort dauðafærið áður en flautað var til hálfleiks, en í bæði skiptin voru markverðir liðanna vel á verði og komu í veg fyrir að fleiri mörk yrðu skoruð í fyrri hálfleik. Staðan 1-1 í hálfleik.

Hasar í teignumVísir/HAG

Strax í upphafi síðari hálfleiks fengu heimakonur þrjár hornspyrnur í beit þar sem eftir hverja hornspyrnu kom hvert færið öðru betra. Endaði það með því að Fylkir skoraði eftir þriðju spyrnuna, allt er þegar þrennt er. Skallaði þá Helga Guðrún Kristinsdóttir boltann yfir Monicu Wilhelm í marki Tindastóls og staðan orðin 2-1.

Meiri hasar í teignumVísir/HAG

Eftir klukkutíma leik slapp Þórhildur Þórhallsdóttir, leikmaður Fylkis, ein í gegn eftir að hafa unnið boltann af aftasta varnarmanni. Þórhildi tókst að leika á markvörð Tindastóls og átti því aðeins eftir að koma boltanum í netið. Þórhildur var þó komin í þrönga stöðu og endaði því skot hennar í hliðarnetinu.

Einhvern veginn endaði þessu ekki inni!Vísir/HAG

Á 70. mínútu bættu heimakonur við marki. Guðrún Karítas Sigurðardóttir var þá fyrst á boltann eftir fyrirgjöf Helgu Guðrúnar Kristinsdóttur.

Heimakonur gengu að lokum alveg frá leiknum á 88. mínútu þegar Kolfinna Baldursdóttir skoraði eftir skyndisókn, en Kolfinna slapp þá ein í gegn og kláraði færið sitt vel.

Gunnar Magnús Jónsson steinhissa á hliðarlínunniVísir/HAG

Atvik leiksins

Annað mark Fylkis var mikið högg fyrir gestina. Markið hafði þó legið í loftinu þar sem Fylkis liðið þjarmaði duglega að Tindastól með stórhættulegum hornspyrnum. Eftir markið jókst sjálfstraust heimakvenna á meðan það dalaði hjá gestunum.

Stjörnur og skúrkar

Helga Guðrún Kristinsdóttir var besti maður vallarins í mjög góðu Fylkis liði. Skoraði hún annað mark liðsins og lagði upp það þriðja. Einnig má nefna Abigail Boyan á miðjunni hjá Fylki, sem skoraði fyrsta mark leiksins, hún var öflug í dag.

Varnarleikur Tindastóls var dapur í síðari hálfleik. Að vissu leyti fékk hann að gjalda fyrir það að liðið var að reyna að finna mark eftir að hafa lent undir, en samt sem áður var hann ekki góður.

Dómarar

Óli Njáll Ingólfsson dæmdi þennan leik óaðfinnalega. Hafði fulla stjórn og var mjög óáberandi, alveg eins og við viljum helst hafa dómarana. Toppleikur hjá dómurum leiksins.

Stemning og umgjörð

Frábær umgjörð hjá Fylki. Landsliðsframherjinn Bryndís Arna Níelsdóttir var mætt á Würth völlinn að gefa áritanir í hálfleik sem og að landsliðstreyja var dregin út í happadrætti.

Fylkiskonur fagna í leikslok og þakka fyrir sigVísir/HAG

Halldór Jón Sigurðsson: „Glatað hjá okkur“

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari TindastólsVísir/HAG

„Fyrri hálfleikurinn góður, seinni hálfleikurinn ömurlegur, það er ekkert flóknara en það. Fylkir átti sigurinn skilið klárlega og voru bara mikið betri en við í seinni hálfleik. Bara vel gert hjá þeim, glatað hjá okkur,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls, eftir leik.

„Fylkir er með hörku lið. Við skoruðum gott mark og svo fáum við nokkur góð færi til að koma okkur í betri stöðu, það tókst ekki. Þær skora svo flott mark fannst mér en eftir lélegan varnarleik og í seinni hálfleik var varnarleikurinn alveg glataður, því miður. Heildar frammistaða liðsins slök í seinni hálfleik og því fór sem fór.“

Aðspurður hvað hafi ollið því að liðið átti eins dapran síðari hálfleik og raun bar vitni, þá hafði Halldór Jón þetta að segja.

„Fylkir átti góðan dag í seinni hálfleik og við áttum bara lélegan dag í seinni hálfleik. Bara einstaklingsgæði hjá þeim og einstaklings ekki-gæði hjá okkur í mörkunum sem þær skora. Við þurfum bara að vera betri enn þetta. Þetta var lélegasta frammistaða í seinni hálfleik á tímabilinu hingað til og það er eitthvað sem er ömurlegt.“

Í liðinni viku missti Tindastóll einn sinn allra besta leikmann frá sér, varnarmanninn Gwendolyn Mummert, en hún er að fara að leika í efstu deild í Þýskalandi. Saknaði liðið hennar í dag?

„Við söknuðum að sjálfsögðu Gwendolyn, eðlilega. Ég held að öll lið hefðu saknað Gwendolyn sama á móti hverjum og hvenær sem er. Við skrifum samt þetta ekkert á einn leikmann, bara heildarframmistaða liðsins var ömurleg í seinni hálfleik og það er eitthvað sem við þurfum að gera betur gegn töluvert sterkara liði í næsta leik,“ sagði Halldór Jón að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira