Erlent

Dæmdur fyrir að myrða bróður sinn í út­för

Eiður Þór Árnason skrifar
Árásin var gerð í Rath kirkjugarðinum í bænum Tralee.
Árásin var gerð í Rath kirkjugarðinum í bænum Tralee. Google

Karlmaður hefur verið sakfelldur fyrir að myrða eldri bróður sinn í útför í Kerry-sýslu á Írlandi. Patrick Dooley er sá fjórði til að verða dæmdur fyrir að hafa orðið Thomas Dooley að bana þann 5. október 2022.

Hópur vopnaðra manna réðst á hinn 42 ára Thomas á meðan athöfnin stóð yfir í Rath Cemetery kirkjugarðinum í bænum Tralee í suðvesturhluta Írlands.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu en flestir árásarmannanna voru tengdir fórnarlambinu blóðböndum. Hinn 36 ára gamli Patrick er einn þeirra sex manna sem réttað hefur verið yfir í tengslum við morðið. Thomas hlaut alvarleg stungusár í árásinni sem leiddu hann til bana.

Sjö barna faðir

Í gær voru tveir aðrir karlmenn, 43 ára mágur hins látna og 21 árs systkinabarn hans sakfelldir auk unglingsdrengs af kviðdómi við dómstól í Cork fyrir aðild sína að morðinu.

Hafa því alls fjórir verið sakfellir og kemur kviðdómur aftur saman á þriðjudag til að komast að niðurstöðu í máli tveggja eftirstandandi sakborninga. Sá 29 ára gamli Michael Dooley og 42 ára Daniel Dooley eru systkinabörn hins myrta. Að sögn BBC var Thomas Dooley sjö barna faðir sem bjó í bænum Killarney í Kerry-sýslu. Hann skildi eftir sig eiginkonuna Siobhán Dooley sem er sögð hafa slasast alvarlega í árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×