Körfubolti

Strákarnir sprungu út og tryggðu sér úr­slita­leik um sæti í A-deild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku strákarnir fóru hamförum í sókninni gegn Norður-Makedóníu.
Íslensku strákarnir fóru hamförum í sókninni gegn Norður-Makedóníu. kkí

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum tuttugu ára og yngri vann öruggan sigur á Norður-Makedóníu á EM í dag, 116-87.

Ísland mætir annað hvort Tyrklandi eða Svartfjallalandi á morgun í úrslitaleik um hvort liðið heldur sér í A-deild Evrópumótsins.

Eftir að hafa haft hægt um sig til þessa á mótinu fór Hilmir Arnarson mikinn í leiknum í dag. Hann skoraði þrjátíu stig og hitti úr sex af tíu þriggja stiga skotum sínum. Alls var íslenska liðið með fimmtíu prósent þriggja stiga nýtingu í leiknum.

Norður-Makedóníumenn byrjuðu leikinn betur og voru sex stigum yfir, 14-20, eftir 1. leikhluta. En í 2. leikhluta tóku Íslendingar völdin, unnu hann, 32-18, og leiddu með átta stigum í hálfleik, 46-38.

Íslenska liðið fór svo hamförum í 3. leikhluta og skoraði þar hvorki fleiri né færri en 43 stig. Á meðan gerði norður-makedónska liðið 25 stig. Fyrir lokaleikhlutann munaði því 26 stigum á liðunum, 89-63.

Spennan var því lítil á lokakafla leiksins og svo fór að Ísland vann 29 stiga sigur, 116-87.

Tómas Valur Þrastarson skoraði sautján stig fyrir íslenska liðið og Ágúst Goði Kjartansson fjórtán. Almar Orri Atlason var með tólf stig, Kristján Fannar Ingólfsson tíu og Daníel Ágúst Halldórsson skilaði átta stigum, sjö fráköstum og tólf stoðsendingum.

Alls gáfu leikmenn íslenska liðsins 38 stoðsendingar í leiknum en sóknin gekk afar smurt í dag eins og tölurnar bera með sér. Þá skoraði Ísland 37 stig eftir hraðaupphlaup en Norður-Makedónía aðeins þrettán og íslenska liðið fékk 58 stig af bekknum í leiknum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×