Íslenski boltinn

Tryggði Þrótti þrjú stig í frum­rauninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Caroline Murray hefur leikið vel fyrir Þrótt í sumar.
Caroline Murray hefur leikið vel fyrir Þrótt í sumar. vísir/hulda margrét

Melissa Alison Garcia skoraði sigurmark Þróttar gegn FH, 2-1, í fyrsta leik sínum fyrir félagið. Með sigrinum komust Þróttarar upp í 6. sæti deildarinnar.

Þróttur er nú með þrettán stig, jafn mörg og Stjarnan en betri markatölu. FH er svo í 5. sætinu með nítján stig. FH-ingar hafa tapað tveimur leikjum í röð.

Heimakonur náðu forystunni á 16. mínútu þegar Leah Maryann Pais skoraði með góðu skoti. Gestirnir unnu sig inn í leikinn eftir þetta og jöfnuðu á 29. mínútu. Elísa Lana Sigurjónsdóttir skoraði þá en skömmu áður hafði Breukelen Lachelle Woodard skotið í stöngina á marki heimakvenna. Staðan var 1-1 í hálfleik.

Leikurinn var áfram fjörugur í seinni hálfleik og á 62. mínútu skaut Breukelen öðru sinni í stöngina.

Bæði lið ógnuðu en átta mínútum fyrir leikslok skoraði Melissa, sem kom inn á sem varamaður í hálfleik, sigurmark Þróttara.

Eftir erfiða byrjun á tímabilinu hefur Þróttur nú unnið þrjá af síðustu sex leikjum sínum og fer, eins og staðan er núna, í úrslitakeppni efri hlutans ásamt Breiðabliki, Val, Þór/KA, Víkingi og FH.

Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×