Erlent

Barni bjargað úr kviði látinnar móður

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ættingjar hinnar látnu móður syrgðu hana sáran áður en lík hennar var flutt til greftrunar.
Ættingjar hinnar látnu móður syrgðu hana sáran áður en lík hennar var flutt til greftrunar. AP

Það er snörum handtökum lækna að þakka að barni var bjargað úr kviði látinnar móður á Gasa í gær. Móðirin var drepin í loftárás Ísraelsmanna en hafði komist lífs af úr annarri loftárás í vor, þar sem foreldrar hennar og systkini létust. Vopnahlé á Gasa gæti verið í augsýn.

Einn lést í drónaárás Húta, jemenskra uppreisnarmanna á Tel Aviv í Ísrael í gær og markar þar með fyrsta mannfall sem orðið hefur í Hútaárás á ísraelskri grundu. Á sólarhring hefur Ísraelsher hins vegar drepið að minnsta kosti 37 Palestínumenn í loftárásum; þar af sjö í árás á Nuseirat-flóttamannabúðirnar í gær. Á meðal látinna var hin 25 ára Ola al-Kurd sem var komin níu mánuði á leið með sitt fyrsta barn.

„Hún var komin níu mánuði á leið þegar hún varð fyrir árásinni í dag. Hún hlaut píslarvættisdauða í árás hernámsliðsins og var þegar í stað flutt á Awda-sjúkrahúsið þar sem hún undirgekkst strax uppskruð,“ segir Dr. Khalil Dajran, talsmaður Aqsa-sjúkrahússins.

„Nýburinn er nú í hitakassa á fæðingardeildinni. Hann hóf líf sitt sem móðurlaust barn og munaðarleysingi.“

Vopnahlé gæti verið í sjónmáli

Ættingjar hinnar látnu móður syrgðu hana sáran áður en lík hennar var flutt til greftrunar. Al-Kurd missti foreldra sína og nokkur systkini í loftárás Ísraelsmanna fyrir fjórum mánuðum en komst þá sjálf lífs af. Eiginmaður hennar særðist í árásinni í gær og hlýtur aðhlynningu á sjúkrahúsinu, þar sem ónefndur sonur þeirra liggur einnig.

Vopnahlé á Gasa gæti verið í sjónmáli, ef marka má orð Anthonys Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í gær. Hann sagði stríðandi fylkingar, auk fulltrúa samningsríkja, nálgast marklínuna í viðræðum sem standa nú yfir í Kaíró. Næðust samningar yrði um 120 ísraelskum gíslum sleppt úr haldi Hamas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×