Körfubolti

LeBron kom í veg fyrir ein óvæntustu úr­slit körfuboltasögunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James bjargaði andliti Bandaríkjamanna gegn Suður-Súdönum í gær.
LeBron James bjargaði andliti Bandaríkjamanna gegn Suður-Súdönum í gær. getty/Aaron Chown

Ekki mátti miklu muna að ein óvæntustu úrslit körfuboltasögunnar litu dagsins ljós í London í gær þegar stjörnum prýtt lið Bandaríkjanna mætti Suður-Súdan í æfingaleik. LeBron James bjargaði andliti Bandaríkjamanna.

Suður-Súdanir voru alls óhræddir við bandarísku stjörnurnar og náðu mest sextán stiga forskoti í leiknum. Og þegar tuttugu sekúndur voru eftir kom JD Thor, fyrrverandi leikmaður Charlotte Hornets, Suður-Súdan yfir með þriggja stiga körfu, 99-100.

Þá tók hinn 39 ára LeBron málin í sínar hendur og kom Bandaríkjunum yfir þegar átta sekúndur voru eftir. Það reyndist sigurkarfa leiksins þrátt fyrir að Suður-Súdan hefði fengið tækifæri til að tryggja sér sigurinn á lokasekúndunum.

„Við tökum ekkert af Suður-Súdan. Þeir spiluðu einstaklega góðan körfubolta og það er þess vegna sem leikurinn vinnst á gólfinu en ekki á pappír,“ sagði LeBron sem skoraði 25 stig í leiknum í O2 höllinni í London.

Suður-Súdan er á leið á sína fyrstu Ólympíuleika og miðað við frammistöðuna í gær getur liðið vel látið að sér kveða í París. Ekki er langt síðan Suður-Súdan fékk sjálfstæði og körfuboltalið þjóðarinnar hefur aðeins verið til í nokkur ár.

Carlik Jones, sem var eitt sinn á mála hjá Chicago Bulls, var með þrefalda tvennu í gær; fimmtán stig, ellefu fráköst og ellefu stoðsendingar, og Marial Shayok, fyrrverandi leikmaður Philadelphia 76ers, skoraði 24 stig og hitti úr sex af tólf þriggja stiga skotum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×