Lífið

Ör­kumlaðist eftir slys en heldur fast í drauminn

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Þrátt fyrir hörmulegar afleiðingar slyssins hefur Elínborg alltaf verið staðráðin í halda áfram og finna gleði í lífinu.
Þrátt fyrir hörmulegar afleiðingar slyssins hefur Elínborg alltaf verið staðráðin í halda áfram og finna gleði í lífinu. Samsett

Líf Elínborgar Björnsdóttur umturnaðist eftir alvarlegt bílslys í janúar 2020. Afleiðingarnar voru þær að hún lamaðist algjörlega á vinstri hlið líkamans. Um það leyti sem hún lenti í slysinu hafði hún stundað pílukast í meira en tvo áratugi – og skarað fram úr auk þess að vera margfaldur Íslandsmeistari í sundi.

Hún keppti með landsliðinu í pílukasti í tíu ár og vann til fjölda verðlauna. Þrátt fyrir hörmulegar afleiðingar slyssins hefur Elínborg alltaf verið staðráðin í halda áfram og finna gleði í lífinu. Þar hefur pílukastið verið hennar helsta haldreipi.

Stærsti draumur Elínborgar, eða Ellu eins og hún er kölluð, er að taka þátt í heimsmeistaramóti fatlaðra sem haldið verður í Skotlandi 1. til 4. ágúst næstkomandi. Það hefur hins vegar reynst henni hægara sagt en gert að fá fjárhagslegan stuðning sem fatlaður einstaklingur, öfugt við þegar hún var ófötluð.

Langur vegur framundan

Í nóvember árið 2020 sagði Ella sögu sína í ítarlegu viðtali við Jakob Bjarnar, blaðmann Vísis.

Vísir greindi frá þessu skelfilega slysi en það var talsvert til umfjöllunar ekki síst vegna þess hvernig allur aðdragandi var. Slysið átti sér stað á Sandgerðisvegi síðdegis laugardaginn 18. janúar. Lögreglan hafði veitt ökumanni á stolinni bifreið eftirför í Reykjanesbæ. Var ökumaðurinn á miklum hraða þegar hann reyndi að komast undan lögreglunni.

„Ökumaðurinn fór í gegnum hringtorgið nærri Keflavíkurflugvelli og inn á Sandgerðisveg. Þegar hann hafði ekið rúman hálfan kílómetra á Sandgerðisvegi, við slæm akstursskilyrði, fór hann yfir á rangan vegarhelming. Við það rakst hann á bifreið sem tveir voru í, ökumaður og farþegi. Farþeginn er kona og liggur nú þungt haldin á sjúkrahúsi,“ segir í frétt Vísis. Ökumaðurinn, sem var á þrítugsaldri, reyndist próflaus og undir áhrifum fíkniefna.

Vinkona Ellu og ökufanturinn sluppu furðuvel frá árekstrinum, Ella ekki.

Ella var flutt af B6 á Borgarspítalanum á sjúkrahúsið í Keflavík. Hún var þjáð, nánast lömuð öðrum megin. Hún er með gaumstol sem veldur því að hún skynjar illa þá hlið, gleymir henni og áttar sig því illa að takmörkunum sínum, upplifir fyrst og fremst skárri hliðina.

Sjúkrahúsið í Keflavík var bið en á Grensásdeildinni hófst endurhæfing, ekki bara líkamleg heldur gat Ella rætt við sálfræðinga og prest. Það var langur vegur fram undan, hún þurfti að læra á þennan líkama sem vildi bæði bregðast henni og blekkja. Og svo þurfti hún að átta sig á stöðu sinni, sætta sig við sumt og reyna að breyta öðru.

Vill nýta það sem hún hefur

Í dag er staðan sú að Ella þarf að reiða sig á notendastýrða persónulega aðstoð til að sinna öllum athöfnum daglegs lífs.

Eins og gefur að skilja var það mikill viðsnúningur fyrir stálhrausta íþróttakonu að vera skyndilega upp á aðra komin við að sinna hverdagslegum hlutum.

„Allt í einu ertu komin í þá stöðu að þurfa að hafa einhvern yfir þér allan sólarhringinn. Þú getur ekki lengur gert sjálfsögðustu hluti, eins og bara að labba um heima hjá þér og gramsa í skúffum og skápum. Það vill enginn vera í þessum aðstæðum, “ segir Ella.

Það var henni til happs að þó að svo að vinstri hlið líkamans hafi lamast algjörlega þá er hægri hliðin fullkomlega virk. Og hún er staðráðin í að nýta það sem hún hefur.

„Mér var sagt að ég ætti aldrei eftir að staðið í fæturna á ný. Ég sætti mig einfaldlega ekki við það. Í dag er ég komin á þann stað að ég get staðið upp, og ég get labbað upp og niður nokkrar tröppur- með stuðningi. Ég hef þurft að berjast með krafti og klóm til að ná fram þessari endurhæfingu og ég er ekki hætt. Ég held áfram, alveg sama hvað.“

Hvaðan færðu þennan styrk til að halda áfram?

„Ég er einfaldlega þannig gert að ég gefst aldrei upp, alveg sama hvað. Það er einfaldlega ekki í boði að gefast upp. Ég læt engan segja mér hvað ég get og hvað ég get ekki. Sonur minn sagði einu sinni við mig: „Mamma, allt sem þú gerir, allt sem þú tekur þér fyrir hendur, þú verður best í því, “ svarar Ella.

Hún útilokar ekki að bakgrunnur hennar úr íþróttunum hafi eitthvað með þetta að segja. Íþróttirnar hafi fengið hana til að þróa með sér viljastyrk og seiglu til að halda áfram, þrátt fyrir ófáar hindranir. 

Skiptir öllu að geta kúplað sig út

Ella kynntist pílukasti fyrir 21 ári síðan. Það var fyrir tilviljun; gömul vinkona dró hana með sér á æfingu. Eftir það var ekki aftur snúið. Hún fór alla leið. Pílukastið var hennar líf og yndi. Þar kynntist hún meðal annars manninum sínum heitnum.

Eftir slysið var ljós að Ella gat ekki haldið áfram að æfa með landsliðinu í pílukasti.

„Það var rosalega mikið sjokk að detta úr landsliðinu,” segir hún og bætir við að pílukastið sé einfaldlega ómissandi þáttur af lífi hennar.

„Slysið hefur tekið svo margt frá mér en ég reyni hvað ég get að halda í pílukastið. Það skiptir mig svo ótrúlega miklu máli að geta kúplað mig út úr öllu. Að geta skipt um umhverfi og farið í annan „heim.“ Svo ekki sé minnst á félagsskapinn í pílukastinu. Ég er ekki með mjög sterkt bakland í fjölskyldunni minni en í pílukastinu hef ég eignast fjölmarga vini, sem eru eins og fjölskyldan mín. “

Eftir slysið fór Ella á stúfana og kynnti sér íþróttastarf fatlaðra. „Ég fann síðan heimssamband fatlaðra á netinu og hef síðan þá keppt á þeirra mótum, á eigin vegum.“

Þáttökuna hefur hún þurft að fjármagna að langmestu leyti algjörlega sjálf.

„Núna er þetta þannig að hafa með mér tvo starfsmenn, greiða hótel og flug fyrir þrjá og borga laun til að geta tekið þátt í mótum. Því miður hefur reynst erfiðara að fá styrki sem fatlaður einstaklingur en það var þann áratug sem ég keppti með landsliði ófatlaðra í pílukasti. Það er náttúrulega bara þannig að það eru fleiri sem vilja styrka lið, en ekki einstaklinga.

En mín upplifun er líka sú að það er ekki tekið eins mikið mark á mér, af því að ég er fötluð. Það er eins og ég sé ekki tekin jafn alvarlega og þegar ég var ófötluð,“segir hún og bætir við:

„Ég á erfitt með að skilja hvers vegna það er.“

Stóri draumurinn

Eftir að hafa lent í öðru sæti á Evrópumeistaramóti fatlaðra bæði í vor og í fyrra hefur hún unnið sér inn þátttökurétt á heimsmeistaramóti fatlaðra sem haldið verður í Skotlandi 1. til 4. ágúst næstkomandi. En til að komast þarf hún fjárhagslegan stuðning. Heildarkostnaður er tæplega tvær milljónir. Ella þráir ekkert heitar en að komast út til Skotlands, en tíminn er naumur. 

Á dögunum birti Ella færslu á facebook þar sem hún vakti athygli á stöðu sinni.

Mér þætti afskaplega vænt um ef þið sæjuð ykkur fært um að styrkja mig. Margt smátt gerir eitt stórt og eykur líkur á að draumurinn um þátttöku á heimsmeistaramóti verði að veruleika, ritaði hún meðal annars í færslunni. Hún tekur fram að ef henni muni takast að safna umfram fyrrnefnda upphæð þá muni hún nota það til að fjármagna aðrar keppnisferðir í framtíðinni.

Þeim sem vilja leggja Elínborgu lið er bent á eftirfarandi reikningsupplýsingar:

Reikningsnúmer: 0142-26-015247

Kennitala: 110473-4949






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.