Íslenski boltinn

Heimir hefur aldrei tapað á móti Skaga­mönnum sem þjálfari FH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Guðjónsson þekkir það manna best að stýra FH liðinu til sigurs á móti Skagamönnum.
Heimir Guðjónsson þekkir það manna best að stýra FH liðinu til sigurs á móti Skagamönnum. Vísir/Diego

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, stýrir sínum mönnum í kvöld á móti Skagamönnum í Bestu deild karla í fótbolta. Sagan segir okkur að það ætti að boða gott fyrir Hafnfirðinga. Heimir getur nefnilega fagnað sigri í fjórtánda leiknum í röð á móti ÍA.

Leikur FH og ÍA er eini leikur kvöldsins og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport en útsendingin hefst klukkan 19.00.

Heimir hefur aldrei tapað á móti Skagamönnum í efstu deild sem þjálfari FH og meira en það því Heimir hefur fagnað sigri í öllum þrettán leikjunum. Markatalan er líka mjög glæsileg eða 44-15, liðum Heimis í vil.

Heimir er fyrrum leikmaður með ÍA en hann lék upp á Akranesi frá 1998 til 1999. Þá gekk hann til liðs við FH og fór síðan að þjálfa hjá FH eftir að hann setti skóna upp á hilluna eftir 2005 tímabilið.

Heimir stýrði FH í fyrsta sinn á móti ÍA um miðjan maí 2008 þar sem FH-ingar unnu 2-0 sigur. Liðið vann síðan líka hina ellefu leiki sína á móti ÍA þar til að Heimir hætti þjálfun liðsins eftir 2017 tímabilið.

Heimir hefur reyndar tapað á móti ÍA sem þjálfari í efstu deild en þá var hann þjálfari Valsmanna. Fyrra tapið kom á Hlíðarenda í júlí 2020 en það síðara á Akranesi í júlí 2021.

Þegar hann stýrði FH aftur á móti ÍA eftir sjö ára fjarveru þá var samt ekki sökum að spyrja. FH-ingar unnu 2-1 sigur á Skagamönnum í apríl síðastliðnum.

Skagamenn hafa líka unnið FH-inga tvisvar sinnum á síðustu árum. ÍA vann 2-1 sigur í Kaplakrika í október 2022 þegar Siguvin Ólafsson þjálfaði FH-liðið. ÍA vann einnig 2-0 sigur á FH á Akranesi í maí 2019 en þjálfari FH-liðsins var þá Ólafur Helgi Kristjánsson.

En þegar Heimir stýrir FH á móti ÍA þá hefur útkoman verið á einn veg.

  • Leikir FH á móti ÍA undir stjórn Heimis Guðjónssonar:
  • 2008:
  • Kaplakriki: FH vann 2-0
  • Akranes: FH vann 5-2
  • 2012
  • Akranes: FH vann 7-2
  • Kaplakriki: FH vann 2-1
  • 2013
  • Kaplakriki: FH vann 2-0
  • Akranes: FH vann 6-2
  • 2015
  • Kaplakriki: FH vann 4-1
  • Akranes: FH vann 3-2
  • 2016
  • Kaplakriki: FH vann 2-1
  • Akranes: FH vann 3-1
  • 2017
  • Akranes: FH vann 4-2
  • Kaplakriki: FH vann 2-0
  • 2024:
  • Akranes: FH vann 2-1



Fleiri fréttir

Sjá meira


×