Sport

Lét taka af sér puttann svo hann gæti keppt á Ólympíu­leikunum í París

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hvernig sem fer þá mun Matthew Dawson alltaf eiga minnisvarða um þessa Ólympíuleika. Hann fórnaði hægri baugfingri fyrir þá.
Hvernig sem fer þá mun Matthew Dawson alltaf eiga minnisvarða um þessa Ólympíuleika. Hann fórnaði hægri baugfingri fyrir þá. Getty/Alexander Hassenstein

Ástralski hokkíleikmaðurinn Matthew Dawson var tilbúinn að fórna miklu fyrir það að keppa á Ólympíuleikunum í París.

Eftir að hann meiddist illa á fingri á dögunum var þátttaka hans á leikunum í hættu.

Dawson vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Tókýó og vildi alls ekki missa af leikunum í París. Dawson er þrítugur varnarmaður sem hefur skorað 13 mörk í 209 landsleikjum. Hann spilar með liði Amsterdam í Hollandi.

Dawson hafði hins vegar brotið baugfingur á hægri hendi. Aðgerð hefði líklega kostað hann þátttöku á leikunum en til að flýta fyrir bata þá lét hann bara taka af sér puttann.

„Ég tók upplýsta ákvörðun eftir ráð frá lýtalækni, ekki aðeins til að ná leikunum í París heldur einnig fyrir mig sjálfan út lífið,“ sagði Matt Dawson við 7NEWS.

„Þetta er svolítil breyting og spennandi áskorun,“ sagði Dawson.

Þjálfari hans, Colin Batch, hrósaði lærisveini sínum fyrir staðfestuna. Hann sjálfur er þó ekki viss um að hann gæti tekið þessa ákvörðun sjálfur.

Ástralska hokkíliðið, sem er kallað Kookaburras, er sigurstranglegt á Ólympíuleikunum í ár. Ákvörðun Dawson sýnir liðsfélögum hans hversu mikla seiglu hann býr yfir og mikla ástríðu hann hefur fyrir íþróttinni. Hann fórnar að minnsta kosti ansi miklu fyrir hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×