Enski boltinn

Guardiola: Nei, Kevin er ekkert að fara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og stuðningsmenn Manchester City geta glaðst yfir því að Kevin de Bruyne verður áfram hjá félaginu.
Pep Guardiola og stuðningsmenn Manchester City geta glaðst yfir því að Kevin de Bruyne verður áfram hjá félaginu. Getty/Chris Brunskill

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, staðfesti það á blaðamannafundi að belgíski landsliðsmaðurinn Kevin De Bruyne verði áfram hjá enska félaginu.

Mikið hefur verið skrifað um það að Kevin De Bruyne sé á leiðinni til Sádi Arabíu. Svo langt gengu blaðamenn í skrifum sínum að þeir fullyrtu sumir að De Bruyne væri þegar búinn að gang frá samningi við Al Ittihad liðið.

De Bruyne neitaði því strax og nú hefur knattspyrnustjóri hans endanlega hent málinu út af borðinu.

„Kevin er að fara til Sádi Arabíu,“ sagði ónefndi blaðamaðurinn við Guardiola á blaðamannafundi í gær en spænski stjórinn svaraði: „Nei, Kevin er ekkert að fara,“ sagði Guardiola.

„Ég hef verið ánægður með hópinn minn í mörg ár. Ég veit ekki hvað gerist á markaðnum. Ef einhver fer þá getum við rætt það þegar það gerist,“ sagði Guardiola.

Það eru ekki einu sinni viðræður í gangi á milli Al Ittihad og Belgans þrátt fyrir fyrrnefndar fréttir. De Bruyne á eitt ár eftir af samningi sínum við City.

Kevin De Bruyne er 33 ára gamall og hefur spilað með Manchester City frá árinu 2015. Hann varð enskur meistari í sjötta sinn í vor og hefur alls unnið fimmtán titla með félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×