Sport

Hætti við keppni á Ólympíu­leikunum eftir að upp komst um dýraníð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Charlotte Dujardin mun ekki taka þátt á Ólympíuleikunum í sumar og á yfir höfði sér langt keppnisbann.
Charlotte Dujardin mun ekki taka þátt á Ólympíuleikunum í sumar og á yfir höfði sér langt keppnisbann. Dan Istitene/Getty Images

Breski knapinn Chartlotte Dujardin stefndi á að verða sigursælasti keppandi í sögu þjóðarinnar á Ólympíuleikunum í París en hefur sagt sig frá keppni eftir að upp komst um dýraníð fyrir fjórum árum síðan.

Charlotte hefur unnið sex sinnum til verðlauna á ÓL, þar ef þrenna gullverðlauna, og hefði með medalíu í sumar orðið sú sigursælasta í sögu Bretlands.

Alþjóðareiðsambandinu barst nafnlaus ábending, myndband þar sem Charlotte sást berja hest óhóflega með svipu.

Charlotte hefur játað sök og ákvað sjálf að segja sig frá öllum keppnum meðan rannsókn málsins stendur yfir, en reiknað er með því að hún hljóti alllangt keppnisbann.

„Fjögurra ára gamalt myndband hefur skotist upp á yfirborðið þar sem ég sýni skort á dómgreind við þjálfun. Skiljanlega er málið til rannsóknar og ég hef ákveðið að segja mig frá öllum keppnum, þar með talið Ólympíuleikanna í sumar, meðan sú rannsókn fer fram. Það sem átti sér stað er algjörlega úr karakter og endurspeglar ekki mínar þjálfunaraðferðir á nokkurn hátt. Ég skammast mín innilega og hefði átt að sýna betri dómgreind.“

Charlotte bað aðdáendur sína og styrktaraðila enn fremur afsökunar og segist miður sín að hafa brugðist þeim. Hún muni veita fulla samvinnu við rannsókn málsins en ekki tjá sig frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×