Fótbolti

Saka mót­herja sína á ÓL um njósnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cloe Eyja Lacasse er leikmaður kanadíska landsliðsins en hér er hún með liðsfélaga sínum Jessie Fleming.
Cloe Eyja Lacasse er leikmaður kanadíska landsliðsins en hér er hún með liðsfélaga sínum Jessie Fleming. Getty/Vaughn Ridley/

Nýja-Sjáland hefur sent inn formlega kvörtun til Alþjóða Ólympíunefndarinnar vegna framgöngu andstæðinga þeirra frá Kanada.

Starfsmaður kanadíska liðsins er sakaður um njósnir eftir að hafa flogið dróna yfir æfingasvæði Nýja-Sjálands.

Kvennalið þjóðanna mætast einmitt í fyrstu umferð fótboltakeppni Ólympíuleikanna á morgun en leikurinn fer fram á Stade Geoffroy-Guichard leikvanginum í Saint-Étienne. Það var einmitt þar sem dróninn var á flugi.

Ólympíunefnd Nýja-Sjálands segist hafa fengið afsökunarbeiðni frá Kanada og Ólympíunefnd Kanada segist vera bæði í áfalli og mjög vonsvikin vegna atviksins. Kanadamenn segjast líka hafa hafið eigin rannsókn innanhúss.

Kanada vann gullið í fótbolta kvenna á síðustu leikum. Í liðinu í ár er meðal annars hin kanadíska-íslenska Cloe Eyja Lacasse sem fékk íslenskt vegabréf þegar hún spilaði með ÍBV.

„Starfsmenn liðsins okkar tilkynntu atvikið strax til lögreglu sem fann þann sem stýrði drónanum. Þá kom í ljós að þar var á ferðinni starfsmaður hjá kanadíska kvennalandsliðinu í knattspyrnu og hann var handtekinn,“ sagði í yfirlýsingu frá Ný-Sjálendingum.

Ólympíunefnd Nýja-Sjálands hefur farið með málið alla leið fyrir siðanefnd IOC og kallar einnig eftir skýrslu frá Kanadamönnum sjálfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×