Innlent

Við­varandi vætu­tíð og á­fram rigning í kortunum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Rigning, rigning og meiri rigning.
Rigning, rigning og meiri rigning. Vísir

Viðvarandi vætutíð hefur verið sunnan- og vestanlands í sumar og er áfram rigning í kortunum næstu daga. Of snemmt er að spá í spilin um veðrið um verslunarmannahelgina að sögn veðurfræðings.

Útlit er fyrir að áfram verði blautt í veðri víða um landið næstu vikuna að sögn Björns Sævars Einarssonar, vakthafandi veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. „Í dag verða suðlægar áttir og það er rigning eiginlega um allt land. Síðan minnkar vestanlands undir kvöld og á morgun þá má búast við að verði rigning með köflum á austanverðu landinu en líklega bjart með köflum vestanlands en þó eru líkur á stökum skúrum síðdegis,“ segir Björn.

Á föstudaginn séu líkur á að verði lengst af þurrt sunnan- og vestanlands, en einhver rigning á norðaustan verðu landinu. „Um helgina sjálfa er útlit fyrir suðlægar áttir og rigningu með köflum en þó úrkomuminnst norðvestanlands. Hitinn er átta stig kannski úti við sjóinn hérna norðan og austanlands en síðan er allt að því átján eða jafnvel tuttugu gráður inn til landsins þar sem sést til sólar,“ segir Björn.

Líklega verði veðrið best á norðvestur- og austurlandi um helgina. Aðspurður segir Björn að þrátt fyrir talsverða rigningu, hafi sumarið í sögulegu samhengi ekki verið óvenju blautt.

„En það er búin að vera hérna viðvarandi vætutíð sunnan- og vestanlands. Það hefur ekki skipt um og komið norðaustan átt með sól hérna sunnan- og vestanlands að ráði,“ segir Björn. Hann kveðst ekki treysta sér til að spá í spilin varðandi veðrið um verslunarmannahelgina. „Já það eru svona tíu dagar í það, fram á föstudag, þannig það getur nú margt breyst þangað til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×