Meðalhiti jarðar mældist 17,15 gráður á Celsíus mánudaginn 22. júlí samkvæmt bráðabirgðatölum Kópernikusar, loftslagsstofnunar Evrópusambandsins. Hann var 0,06 gráðum hærri en met sem var sett á sunnudag. Fyrra met var um ársgamalt en það var bæting á meti frá 2016. Þá mældist hitinn 16,8 gráður.
Hlýindin almennt eru í samræmi við viðvaranir vísindamanna um afleiðingar stórfelldrar losunar mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti. Ástæðan fyrir þessum sérstöku hlýindum í vikunni er rakin til óvenjumilds veturs á suðurskautinu líkt og þegar eldra metið var sett í fyrra, að sögn AP-fréttastofunnar.
Ekki er hægt að fullyrða að mánudagurinn sé hlýjasti staki dagurinn á jörðinni á síðustu 125 árþúsundum hefur meðalhiti jarðar ekki verið hærri en nú frá því löngu áður en mannkynið tileinkaði sér landbúnað.
Styrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar hefur ekki verið hærri en nú í um þrjár milljónir ára á miðju Plíósentímabilinu. Þá er talið að meðalhiti jarðar hafi verið á bilinu tveimur og hálfri til fjórum gráðum hærri en á tímabilinu fyrir iðnbyltinguna á 19. öld. Hlýnun jarðar nemur nú meira en gráðu miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu.