Erlent

Barist við olíuleka og flóð í kjöl­far felli­bylsins Gaemi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúum komið á brott í Pingtung á Taívan.
Íbúum komið á brott í Pingtung á Taívan. AP/Slökkviliðið í Pingtung

Yfirvöld á Filippseyjum berjast nú við að takmarka olíuleka frá tankskipinu MT Terra Nova, sem fór á hliðina þegar fellibylurinn Gaemi gekk yfir. Um borð voru 1,5 milljón lítrar af olíu, sem óttast er að gætu náð ströndum höfuðborgarinnar Manila.

Olíulekinn gæti mögulega orðið sá versti í sögu Filippseyja ef ekki tekst að ná utan um hann og þá er óttast um áhrif hans á fiskveiðar og ferðamannaiðnaðinn, sem er blómlegur á svæðinu. Olíubletturinn er nú þegar sagður ná yfir fjögurra kílómetra svæði.

Sextán hefur verið bjargað af MT Terra Nova en eins er enn saknað.

Annað skip fór á hliðina þar sem það lá undan ströndum Taívan. Um var að ræða flutningaskipið Fu Shun, sem siglir undir tansanískum fána. Níu voru um borð, allir frá Mjanmar, og er þeirra saknað. Ekki hefur verið hægt að ráðast í björgunaraðgerðir vegna veðurs.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Manila vegna fellibylsins en um 15 milljónir manna búa á stór höfuðborgarsvæðinu. Mikið regnfall hefur sett daglegt líf úr skorðum og skólum og mörgum fyrirtækjum verið lokað.

Á Taívan eru götur undir vatni eftir mikil flóð og að minnsta kosti þrír látnir. Yfir 200 hafa slasast og fleiri en 290 þúsund heimili eru án rafmagns.

Gaemi er sagður munu ná ströndum Kína í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×