Erlent

Rusla­belgir frá Norður-Kóreu raska flug­ferðum og kveikja eld

Kjartan Kjartansson skrifar
Suðurkóreskir hermenn skófla upp papparusli sem barst með norðurkóreskum loftbelg í Incheon í gær.
Suðurkóreskir hermenn skófla upp papparusli sem barst með norðurkóreskum loftbelg í Incheon í gær. AP/Lim Sun-suk/Yonhap

Loftbelgir með sem Norðurkóreumenn senda yfir landamærin til nágranna sinna í suðri hafa valdið töluverðum usla síðasta sólarhringinn. Flugferðum var frestað á flugvelli í Seúl vegna belgjanna og einn þeirra tendraði eld á þaki íbúðarbyggingar.

Suðurkóresk yfirvöld áætla að um fimm hundruð loftbelgir fullir af pappa- og plastsorpi hafi svifið yfir landamærin og inn í lofthelgi þeirra frá því í gær, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Norðanmenn hafa ítrekað sent slíka belgi undanfarnar vikur sem svar við sendingum norðurkóreskra flóttamanna og aðgerðasinna í Suður-Kóreu. Þeir hafa sent áróðusbleðla, lyf, peninga og minniskubba með popptónlistarmyndböndum og sjónvarpsþáttum yfir til Norður-Kóreu.

Talsmaður herforingjaráðs landsins segir að sumir belgjanna séu með klukku og séu stilltir til að springa innan ákveðins tíma og dreifa ruslinu. Eldhætta væri vegna þeirra. Eldur kviknaði í einum loftbelg sem lenti á þaki íbúðarbygginga í Gyeonggi-héraði nærri Seúl.

Flugferðum til og frá Gimpo-flugvelli í Seúl var frestað í tvær klukkustundir í gærkvöldi vegna loftsbelgs sem var talinn innan flugstjórnarsvæðisins. Norðurkóresku belgirnir hafa ítrekað raskað ferðum á Incheon-flugvelli, stærsta alþjóðaflugvelli landsins, undanfarnar vikur.

Nokkrir loftbelgir lentu jafnframt í grennd við forsetahöll Suður-Kóreu á miðvikudag.

Norðurkóreskur loftbelgirnir hafa ekki valdið meiriháttar skemmdum til þessa. Þeir eru þó sagðir skjóta sunnanmönnum skelk í bringum um að þeir gætu verið notaðir til þess að varpa efna- eða sýklavopnum yfir landið. Sunnanmenn hafa veigrað sér við að skjóta belgina niður af ótta við að fallandi byssukúlur gætu valdið skaða og að belgirnir gætu innihaldið hættuleg efni, að sögn AP-fréttastofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×