Enski boltinn

Fulham gerir Smith Rowe að dýrasta leik­manni í sögu fé­lagsins

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Emile Smith Rowe er staddur í æfingaferð með Arsenal eins og er en verður fljótlega leikmaður Fulham. 
Emile Smith Rowe er staddur í æfingaferð með Arsenal eins og er en verður fljótlega leikmaður Fulham.  Stuart MacFarlane/Arsenal FC via Getty Images

Fulham er sagt hafa boðið 35 milljónir punda í Emile Smith Rowe, sem myndi gera hann að dýrasta leikmanni í sögu félagsins. Arsenal er tilbúið að leyfa leikmanninum að fara en kveður hann með miklum trega.

David Ornstein hjá The Athletic greindi fyrst frá

Smith Rowe er 23 ára vinstri vængmaður eða miðjumaður, uppalinn hjá Arsenal og vakti mikla athygli þegar hann kom upp úr akademíunni en hefur lítið spilað undanfarin tvö tímabil vegna meiðsla.

Gabriel Martinelli hefur fest sig í sessi sem byrjunarliðsmaður á vinstri vængnum og Smith Rowe því þurft að sætta sig við bekkjarsetu þegar heilsan leyfir honum að spila.

Arsenal batt miklar vonir við leikmanninn og vildi helst halda honum, en félagið sýnir því skilning að hann sækist í meiri spiltíma og sættir sig við upphæðina sem Fulham er tilbúið að greiða.

Smith Rowe ferðaðist með Arsenal til Bandaríkjanna þar sem liðið er í æfingaferð næstu vikur en spilaði ekki æfingaleik gegn Bournemouth í nótt.

„Það er hlutir að hreyfast bakvið tjöldin akkúrat núna. Við ákváðum að það yrði best að hann tæki ekki þátt í leiknum,“ sagði Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, á blaðamannafundi eftir leik.

Smith Rowe yrði dýrasti leikmaður í sögu Fulham ef salan gengur í gegn fyrir 35 milljónir punda, metið var í eigu Jean Michael Seri sem var keyptur á 27 milljónir punda árið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×