Innlent

„Það er svo­lítill vælukjóatónn í honum“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Friðjón Friðjónsson er borgarfulltrúi og áhugasamur um bandarísk stjórnmál.
Friðjón Friðjónsson er borgarfulltrúi og áhugasamur um bandarísk stjórnmál. vísir/vilhelm

Borgarfulltrúi hefur áhyggjur af því að Joe Biden, Bandaríkjaforseti hafi ekki þrek til að klára síðustu mánuðina í embætti, svo veiklulegur hafi hann verið í ávarpi sínu til þjóðarinnar í gær.

Ávarpið hófst á miðnætti á íslenskum tíma og sagðist Biden ætla að klára kjörtímabil sitt en að tími væri kominn til að ný og yngri kynslóð tæki við keflinu.

Friðjón Friðjónsson borgarfulltrúi og áhugamaður um bandarísk stjórnmál segir frammistöðu Biden í gær sýna að það hafi verið rétt ákvörðun hjá honum að stíga til hliðar.

„Maður í alvörunni fer að hugsa hvort hann hafi kraft í þessa síðustu sex mánuði.“

Donald Trump fór mikinn á framboðsfundi í Norður-Karólínu í gærkvöld þar sem hann beindi spjótum sínum að Kamölu Harris og kallaði hana meðal annars öfga vinstri brjálæðing og Lygnu-Kamölu. Þá gerði hann lítið úr störfum hennar sem saksóknara og sagði hana fylgjandi þungunarrofi eftir fæðingu barns.

Friðjón segir ljóst að innkoma Harris sé áfall fyrir Rebúblikana og Trump.

„Það er svolítill vælukjóatónn í honum. Honum finnst þetta allt saman ósanngjarnt, að Biden sé farinn sem hann sá fyrir sér að gjörsigra og Harris komin í staðin.“

Ætlun Trump sé að mála ákveðna mynd af Harris.

„Þeir ætla jú að teikna Kamölu upp sem mjög vinstri sinnaða og reiða og svarta konu sem er ekki í jafnvægi, sem er ákveðin ímynd sem er til í bandarískri menningu. En hann er bara kominn í gamla farið að uppnefna fólk og vera eins og hann hefur alltaf verið.“

Trump óttist Harris

Viðbrögð Trump séu merki um að hann óttist Harris. Frá því að Biden tilkynnti ákvörðun sína hafi Demókrötum gengið vel, sérstaklega í fjáröflun.

„Og lang stærstur hluti af því í smáum framlögum og frá fólki sem er að gefa í fyrsta skipti í þessari kosningabaráttu þannig það er augljóst að hinum almenna Demókrata er mjög létt og þau tilbúin til að taka slaginn fyrir Kamölu Harris.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×