Fótbolti

Frá Ástralíu til Ís­lands til að komast á leik kvöldsins: „Þetta er risa­stórt“

Aron Guðmundsson skrifar
Colin Bright hefur lagt langt ferðalag á sig til þess að geta stutt sína menn í St. Mirren gegn Val í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld.
Colin Bright hefur lagt langt ferðalag á sig til þess að geta stutt sína menn í St. Mirren gegn Val í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld. Vísir

Skoska liðið St.Mir­ren heim­sækir Val í Sam­bands­deild Evrópu í fót­bolta í kvöld. Er um að ræða fyrri leik liðanna 2.umferð undankeppninnar. Stuðnings­menn liðsins hafa sett svip sinn á mann­lífið í Reykja­víkur­borg. Einn þeirra á að baki lengra ferða­lag en hinir. Sá heitir Colin Brig­ht. Hann flaug hingað til lands alla leið frá Ástralíu til að mæta á leik kvöldsins á N1 vellinum að Hlíðar­enda.

„Þetta er risa­stórt fyrir okkur og þú sérð það bara á þeim fjölda stuðnings­manna St. Mir­ren sem hafa lagt leið sína hingað til Ís­lands til þess að styðja við bakið á strákunum í leik kvöldsins,“ segir Colin í sam­tali við í­þrótta­deild Vísis fyrir utan Dubliner í mið­borg Reykja­víkur þangað sem stuðnings­menn St. Mir­ren hafa fjöl­mennt í dag.

Klippa: Kom alla leið frá Ástralíu fyrir leik gegn Val í kvöld

Um er að ræða fyrsta leik St. Mir­ren, fé­lags með mikla sögu í skoskum fót­bolta, í Evrópu­keppni síðan tíma­bilið 1987/88. Því er leikurinn í kvöld gegn Val, líkt og Colin tjáir okkur, risa­stór fyrir fé­lagið og stuðnings­menn þess.

„Við hefðum geta verið með mun fleiri stuðnings­menn hér, yfir 1500 jafn­vel ná­lægt 2000 manns ef heima­völlur Vals væri stærri og fleiri miðar í boði. Þetta er risa­stór stund fyrir okkur. Sum okkar hafa verið að bíða eftir þessari stund í þrjá­tíu og sjö ár, eða frá síðasta leik okkar í Evrópu.“

„Biðin hefur verið löng og ef­laust hafa komið tímar þar sem að við héldum að við myndum aldrei aftur vera á þessum stað. Sam­keppnin um sæti í Evrópu­keppni er mikil við stór lið á borð við Celtic, Rangers, Aber­deen og Hearts. Það hefur því verið erfitt að vinna sér inn Evrópu­sæti.“

Grátbað yfirmann sinn um frí

Flestir stuðnings­menn St. Mir­ren tóku flugið frá Skot­landi. En ekki Colin. Hann flaug alla leiðina frá Ástralíu til Ís­land til þess að vera við­staddur leik kvöldsins. Colin hefur leikið stórt hlut­verki í stuðnings­manna­hópi St. Mir­ren en fyrr á þessu ári fluttist hann bú­ferlum frá Skot­landi til Ástralíu.

„Það var í janúar á þessu ári sem ég flutti til Ástralíu þar sem að ég starfa núna sem kennari. Í maí síðast­liðnum. Á þeim tíma sem St. Mir­ren tryggði sér sæti í Evrópu­keppni með góðum árangri í skosku deildinni, fór ég að byrja skipu­leggja ferð frá Ástralíu til þess að geta verið við­staddur fyrsta Evrópu­leik fé­lagsins í þessa tæpa fjóra ára­tugi.

Ég fór niður á hnén fyrir framan yfir­mann minn í skólanum og grát­bað hana um frí á þessum tíma. Það er erfitt þar sem að núna er prófa­tíð í gangi. Ég skrifaði einnig langt bréf til hennar þar sem að ég greindi henni frá mikil­vægi þess að geta farið á þennan leik. Blessunar­lega fékk ég frí. Þá þurfti ég einnig að biðja eigin­konu mína mjög fal­lega um leyfi til þess að koma hingað. Það er ekki ó­dýrt að ferðast alla leið frá Ástralíu til Ís­lands.“

Á föstu­daginn í síðustu viku kom það í ljós að St. Mir­ren myndi hefja endur­komu sína í Evrópu­keppni hér á Ís­landi gegn liði Vals og þá þurfti Colin að hafa hraðar hendur.

„Ég var fljótur að bóka flug. Fór í vinnunna þennan sama dag, flýtti mér svo heim að ná í far­angurinn og fór svo beint á flug­völlinn í Mel­bour­ne. Þaðan flaug ég til Doha í Katar, þaðan til Róm og tók svo beint flug þaðan til Ís­lands.“

Fegurðin við knatt­spyrnuna kristallast ein­hvern veginn í þessu ferða­lagi Colin sem var til­búinn að ferðast þvert yfir hnöttinn til að geta verið á N1 vellinum í kvöld. Hann hefur síðan ferða­lagið heim til Ástralíu í fyrra­málið. Því ferða­lagi lýkur á sunnu­daginn kemur.

Hæfilega bjartsýnn

En hvernig lýst Colin á leik kvöldsins. Er hann bjart­sýnn?

„Þið munuð klár­lega heyra í stuðnings­mönnum St. Mir­ren í kvöld. Ekki bara á vellinum heldur um gjör­valla Reykja­víkur­borg. Okkur fylgir mikill há­vaði. Ég er hæfi­lega bjart­sýnn. Þetta verður krefjandi leikur og er ég þá kannski einna helst að horfa í leik­form liðanna.

Valur er komið inn í mitt tíma­bil hér á Ís­landi á meðan að mínir menn í St. Mir­ren eru á undir­búnings­tíma­bili sínu fyrir komandi tíma­bil í Skot­landi. Ég býst því að leik­menn Vals verði betur undir­búnir fyrir leik­menn hvað leik­form varðar.“

Gylfi Þór Sigurðsson er stjörnuleikmaður ValsVísir/Diego

„Þá er þetta Vals­lið með þekkt nöfn innan sinna raða. Ég held ég sé að fara með rétt mál þegar að ég segi að þetta sé eitt ríkasta fé­lag Ís­lands. Þetta verður mjög erfiður leikur fyrir St. Mir­ren en við erum með marga gæða leik­menn innan okkar raða. Leik­menn sem búa yfir miklum hraða og krafti. Ég vonast til að það skili okkur úr­slitum sem verða okkur gott vega­nesti inn í seinni leik liðanna í Skot­landi.“

Leikur Vals og St.Mirren í 2.umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst klukkan korter í sjö í kvöld.

  • Leikir íslenskra liða í Sambandsdeild Evrópu fimmtudaginn 25. júlí
  • 18:45 Víkingur - Egnatia (Stöð 2 Sport 5)

  • 18:45 Valur - St. Mirren (Stöð 2 Sport)
  • 19:00 Stjarnan - Paide (Stöð 2 Besta deildin 1)
  • 19:15 Breiðablik - Drita (Stöð 2 Besta deildin 2)

Tengdar fréttir

Hjarta Guð­­mundar slær með St. Mir­ren: Mæta Val í kvöld

Þrátt fyrir að hjarta fyrr­verandi lands­liðs­mannsins í knatt­spyrnu, Guð­mundar Torfa­sonar, slái með skoska liðinu St. Mir­ren er erfitt fyrir hann halda ekki með ís­lenskri knatt­spyrnu í kvöld þegar að Vals­menn taka á móti skoska liðinu í fyrri leik þeirra í 2.um­ferð Sam­bands­deildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×