Fótbolti

„Frammi­staðan veitir von fyrir seinni leikinn“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson lætur til sín taka. 
Höskuldur Gunnlaugsson lætur til sín taka.  Vísir/Ernir

Höskuldur Gunnlaugsson átti góðan leik inni á miðsvæðinu þegar Breiðablik laut í lægra haldi fyrir Drita í fyrri leik liðanna í annarri umferð í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta karla á Kópavogsvelli í kvöld. Fyrirliðinn er vongóður um að Blikar nái að komast áfram þrátt fyrir 2-1 tap. 

„Miðað við gang leiksins finnst mér 2-1 tap alls ekki sanngjörn niðurstaða úr þessum leik. Við heðfum getað gert betur í mörkunum sem þeir skora en þess utan fannst mér við hafa yfirhöndina í þessum leik og spila vel,“ sagði Höskuldur um leik liðanna í kvöld. 

„Sem betur fer náðum við inn marki en við fengum fullt af færum til þess að skora fleiri. Markið sem Ísak Snær skoraði gefur okkur von og við fundum það alveg að við getum klárlega unnið þetta lið. Nú er bara að fara út til Kósóvó og kvitta fyrir þetta tap á þriðjudaginn,“ sagði miðjumaðurinn enn fremur. 

„Þetta var þolinmæðisverk að brjóta þá á bak aftur og það reyndi vissulega á þolinmæði að gameplanið þeirra var að tefja leikinn í gríð og erg. Þeir náðu ekki inn fyrir skinnið hjá okkur en ég get alveg viðurkennt það að mér fannst markmaðurinn þeirra fá helst til mörg líf þegar kemur að leiktöfum hans. Svona er þetta bara og við megum ekki láta það pirra okkur ef þeir spila sama leik úti,“ sagði fyrirliðinn.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×