Erlent

Neitar að stað­festa kapp­ræður við Harris fyrr en eftir út­nefninguna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump virðist ekkert æstur í að mæta Harris í kappræðum.
Trump virðist ekkert æstur í að mæta Harris í kappræðum. Getty/Brandon Bell

Framboð Donald Trump gaf frá sér yfirlýsingu í gær þar sem greint var frá því að vegna yfirstandandi „ringulreiðar“ meðal Demókrata myndi Trump ekki samþykkja kappræður við Kamölu Harris fyrr en hún hefði verið formlega útnefnd forsetaefni Demókrataflokksins.

Í yfirlýsingunni var því haldið fram að margir Demókratar væru ósannfærðir um að Harris gæti sigrað Trump í kosningunum, þeirra á meðal Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. Þeir væru enn að vona að einhver betri stigi fram.

Þannig væri óviðurkvæmilegt að skipuleggja kappræður á meðan Demókratar gætu enn skipt um skoðun.

New York Times hefur greint frá því að Obama hafi átt í reglulegum samskiptum við Harris frá því að Joe Biden dró sig í hlé um síðustu helgi en hann hafi ekki viljað gefa út stuðningsyfirlýsingu til að forðast að hafa of mikil áhrif á þróun mála.

Heimildarmenn segja hann hins vegar hafa haft gaman af sögusögnum um meint vantraust hans í garð Harris og stuðningsyfirlýsing sé væntanleg innan tíðar.

„Hvað varð um „hvenær sem er, hvar sem er“?“ voru viðbrögð Harris við ákvörðun Trump.

Trump gaf það til kynna skömmu eftir að Biden steig til hliðar sem forsetaefni Demókrata að hann ætlaði ekki að mæta Harris í september, eins og stóð til með Biden. Lýsti hann vantrausti á ABC News og vildi fremur að kappræðurnar yrðu í umsjá Fox News.

Hann sagðist þó opinn fyrir því að mæta Harris oftar en einu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×