Sport

Ekki sann­færður um að and­stæðingarnir keppi lyfjalausir

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Caeleb Dressel vann fimm gullverðlaun í Rio de Janeiro og tvö í Tókýó.
Caeleb Dressel vann fimm gullverðlaun í Rio de Janeiro og tvö í Tókýó. Al Bello/Getty Images

Sundmaðurinn og sjöfaldi Ólympíumeistarinn Caeleb Dressel hefur ekki sannfærst um að allir sundkapppar á leikunum í sumar séu ólyfjaðir.

Eftir Ólympíuleikana í Tókýo 2021 kom í ljós að 23 af 30 manna sundliði Kína hefðu keppt þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi skömmu áður.

Lyfjaeftirlitsstofnun landsins (Chinada) úrskurðaði að efnið hafi smitast til sundfólksins, það hafi ekki vitandi eða viljandi innbyrt efnið og því var þeim ekki refsað.

Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin (WADA) sagðist hafa rannsakað málið vandlega og ráðfært sig við utanaðkomandi aðila. Að endingu var niðurstaðan sú að WADA gat ekki afsannað kenningu Chinada um óviljandi smit og engin leið var að sanna að sundfólkið hafi viljandi innbyrt efnið.

11 af þessum 23 keppa fyrir hönd Kína í París.

Caeleb er hins vegar ekki sannfærður og segir ekki næg sönnunargögn til staðar svo hann geti sannfært sjálfan sig um að allir keppendur á ÓL séu lyfjalausir.

Leikarnir verða settir í kvöld, Caeleb keppir í 50 metra skriðsundi og 100 metra flugsundi.

„Þegar einhver eins og Caeleb segir svona, það er augljóslega hrikalegt og alls ekki það sem við viljum. En við verðum að líta fram veginn, vinna aftur traustið og sanna okkur fyrir öllu íþróttafólki sem deilir hans skoðunum,“ sagði Brent Nowicki, forseti alþjóðasundsambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×