Handbolti

„Okkar besti leikur á tíma­bilinu“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Ágúst Jóhannesson þjálfari Vals var helsáttur með leik sinna kvenna
Ágúst Jóhannesson þjálfari Vals var helsáttur með leik sinna kvenna Vísir/Jón Gautur

„Ég held að við getum sagt það að við erum sennilega að spila okkar besta leik á tímabilinu,“ sagði Ágúst Jóhannesson, þjálfari Vals eftir að lið hans tryggði sig inn í úrslitaeinvígið um Evrópubikarinn með stórsigri í kvöld á liðinu Iuventa Michalovce.

„Varnarleikurinn var stórbrotinn og markvarslan sömuleiðis og það skapaði mjög mikið af hraðaupphlaupum fyrir okkur. Við skorum 17 mörk í fyrri hálfleiknum, þar af tíu úr fyrstu, annarri og þriðju bylgju sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt í svona leikjum. Svo var bara uppstilltur sóknarleikur góður, margar sem koma að borðinu þar og við gáfum fá tækifæri á okkur í hraðaupphlaupunum sem er þeirra aðalsmerki. Við náðum að skila boltanum vel frá okkur og komast til baka.“ 

„Heilt yfir þá var þetta frábær frammistaða hjá okkur og í rauninni slógum við bara öll vopn úr þeirra höndum strax í upphafi,“ sagði Ágúst hreykinn af sínu liði.

Þrjú rauð spjöld fóru á loft í leiknum, öll á gestina. Tvö þeirra voru sérstaklega ljót, en í bæði skiptin var rifið aftan í höndina á Elínu Rósu Magnúsdóttur. Ágúst var afar óánægður með þessi fantabrögð gestanna.

„Ég var mjög óánægður með þessi brot, bara ljót brot. Ég ætla nú ekki að segja að þetta hafi verið viljaverk en þetta voru mjög ljót brot og eiga ekki að sjást inn á handboltavellinum. Elín Rósa var í rauninni hér á öðrum fætinum, búin að vera mikið meidd og hún spilaði frábærlega hérna og opnaði vörnina hvað eftir annað. Magnaður leikmaður, enda er hún að fara út í þýsku Bundesliguna eftir tímabilið, en hún auðvitað lenti í þessum brotum. Þetta á ekki að sjást á handboltavellinum.“

Í vikunni kallaði Ágúst eftir því að Valsmenn og almennir handboltaáhugamenn myndu fjölmenna á þennan leik enda um stærsta leik í sögu íslensk kvenna handbolta að hans sögn. Því ákalli var heldur betur svarað og var mætingin á Hlíðarenda afskaplega góð.

„Ég er bara gríðarlega þakklátur og bara stoltur fyrir hönd kvennaboltans að við séum í fyrsta skipti komin með lið í úrslitaleik og þakklátur öllu þessu fólki sem mætti hérna. Þetta var bara stórkostlegt. Þetta eru heldur ekki bara Valsarar heldur fullt af almennum handboltaáhugamönnum og við erum bara mjög þakklát fyrir það.“

„Ég talaði um stærsti en nú er einn stærri eftir og það er úrslitaleikurinn og ég vona bara að það verði uppselt á þann leik. Við fáum bara hingað 1.600 manns og löndum þessum Evróputitli heim. Það er markmiðið okkar og það er bara þannig í þessu að þessir heimavellir geta skipt gríðarlega miklu máli og við förum alltaf út og spilum á stórum völlum þar sem eru kannski þúsund til tvö þúsund manns. Við vonandi fáum áfram sömu mætinguna og þá getum við í rauninni gert allt. Við getum klárað þetta spænska lið í lokin og sótt þennan titil sem við bara klárlega ætlum að gera,“ sagði Ágúst að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×