Starfsfólk hefur einkum séð aukna tíðni hjá yngri unglingum niður í tólf til fjórtán ára aldur. Kallað er eftir vitundarvakningu um stöðu barna og ákváðu stjórnendur hjá Foreldahúsi að hafa opið í júlí sérstaklega til að bregðast við vandanum.
„Okkur finnst vera full ástæða til að skoða það svolítið og líka vara foreldra við að það er orðið svo auðvelt fyrir þau að verða sér út um þetta. Þau þurfa ekki að eiga mikinn pening til að byrja með,“ sagði Guðrún Björg Ágústsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá Foreldrahúsi í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hún telur ýmislegt geta skýrt þessa aukningu en sérstaklega sé það umfangsmikil markaðssetning vímuefna á samfélagsmiðlum sem beinist að unglingum.
„Þar sem verið er að bjóða þeim á góðu verði og það eru heimsendingar, það er ekki spurt um neinn aldur. Þetta er auglýst til að hjálpa þeim með kvíða, leiða, verða hress og svo framvegis og unglingar finna oft fyrir þeim tilfinningum.“
Vímuefni markaðsett með jákvæðum skilaboðum
Guðrún telur aðra ástæðu fyrir aukningunni geta verið að búið sé að normalisera vímuefnaneyslu í samfélaginu.
„Kannski út af lögleiðingu til dæmis kannabis út um allt og svona ýmislegt en ég held að það sé mikið það.“
Það er ekki flókið að finna síður á samfélagsmiðlum þar sem hægt er að kaupa alls kyns fíkniefni frá mismunandi söluaðilum. Þjónustan er víða betri en í hefðbundnum verslunum. Söluaðilar gefa upp síma og hvað efnin kosta. Upprunalands efnis er getið og einhverjir bjóða upp á að keyra fíkniefnin beint til kaupenda. Í einhverjum tilvikum er hægt að millifæra greiðslur á fíkniefnasalana. Loks eru eiturlyfin gjarnan markaðssett með jákvæðum skilaboðum eins og að þau auki orku og úthald.
Mýta að bara sé um að ræða einhverja vandræðaunglinga
Guðrún segir misjafnt í hversu mikinn vanda börn og foreldrar eru komin í þegar þau leita til Foreldrahúss. Sumir foreldrar átti sig strax á því þegar börn þeirra byrja að neyta vímuefna en ekki allir.
„Aðrir foreldrar hafa ekki vitað þetta kannski í ár þannig að unglingurinn getur verið kominn í dálítinn vanda. Og ég ætla bara taka það fram að það eru ekkert frekar unglingar sem búa við einhverjar erfiðar heimilisaðstæður eða sem er eitthvað stórkostlega mikið að. Þetta er bara á öllum stigum þjóðfélagsins.
Það er ekki lengur sú gamla saga að þetta séu bara unglingar sem eigi erfitt. Þetta er alls konar unglingar, unglingar í íþróttum og alls konar.“
Utan opnunartíma Foreldrahúss veitir fagaðili foreldrum ráðgjöf og stuðning í Foreldrasímanum sem er 581-1799.