Formúla 1

Yuki Tsunoda færður aftur um 60 sæti í ræsingu

Siggeir Ævarsson skrifar
Yuki Tsunoda fékk sexfalda refsingu og ræsir síðastur í dag
Yuki Tsunoda fékk sexfalda refsingu og ræsir síðastur í dag Vísir/EPA-EFE/Zoltan Balogh HUNGARY OUT

Yuki Tsunoda, ökumaður Honda, mun ræsa aftastur í belgíska kappakstrinum í dag eftir að hafa verið færður aftur um 60 sæti í refsingarskyni.

Glöggir lesendur átta sig sennilega á að það eru aðeins 20 ökumenn sem keppa hverju sinni í Formúlu 1 svo að Tsunoda mun ræsa úr 20. sæti. Hann fékk refsingu af sama toga og Max Verstappen, en þegar ökumenn skipta um vél í fimmta skipti þurfa þeir að sætta sig við að færast tíu sætum aftur í ræsingu.

Tsunoda er á sinnu fimmtu vél en Honda notaði tækifærið og gerði heilan sæg af öðrum breytingum á búnaði bílsins sem gerði það að verkum að tíu sæta refsingin virkjaðist sex sinnum.

Hann frétti af niðurstöðunni í viðtali á föstudaginn og virtist vera ansi brugðið.

Tsunoda hefur ekki komist á pall í ár en er þó búinn að safna 22 stigum í sarpinn. Það hefur gengið á ýmsu hjá kappanum í ár en í síðustu keppni missti hann stjórn á bílnum og klessti hann illa en betur fór en áhorfðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×