Lífið

Ná­granna­stjarnan Janet Andrewartha látin

Eiður Þór Árnason skrifar
Nágrannar hófust á ný í september í fyrra eftir að framleiðslu sápuóperunnar var tímabundið hætt. 
Nágrannar hófust á ný í september í fyrra eftir að framleiðslu sápuóperunnar var tímabundið hætt. 

Leikkonan Janet Andrewartha sem fór með hlutverk Lyn Scully í sápuóperunni Nágrönnum er látin, 72 ára að aldri. Greint er frá fráfalli hennar á Instagram-síðu sjónvarpsþáttanna vinsælu en persónan Lyn Scully var móðir Stephanie, Felicity og Michelle, og var gift Joe, í um tuttugu ár frá árinu 1999.

„Janet var dáð af áhorfendum fyrir hlutverk hennar sem Lyn Scully í Ramsay Street og verður hennar minnst fyrir fjölbreyttan feril.“ Hennar verði sárt saknað. Janet var einnig þekkt fyrir hlutverk sitt í áströlsku sápuóperunni Prisoner: Cell Block H.

Jackie Woodburne, sem lék Susan Kennedy við hlið Janet í Nágrönnum segir hana hafa verið eina af bestu leikkonum sinnar kynslóðar. „En hún var meira en það, hún var ótrúleg kona. Ástríðufull, pólitísk, forvitin, yndislega sérvitur, gjafmild og skemmtileg. Fyrir mér var hún traustur vinur í yfir 45 ár. Ég mun sakna hennar á hverjum degi.“

Þá skrifaði Stefan Dennis, sem er hvað þekktastur fyrir að leika illkvitna kaupsýslumanninn Paul Robinson í Nágrönnum að hann væri mjög leiður yfir því að horfa á eftir Janet.

„Eins og Jackie sagði, þá var hún sannarlega einstök leikkona sem var ánægjulegt að vinna með og vera í kringum. Við munum öll sakna þín kæra stelpa."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.