Körfubolti

Banda­ríkja­menn ekki í vand­ræðum með Jókerinn og fé­laga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nikola Jokic og LeBron James berjast um frákast í leik dagsins.
Nikola Jokic og LeBron James berjast um frákast í leik dagsins. Pool/Getty Images

Bandaríkin unnu öruggan 26 stiga sigur er liðið mætti Serbíu í fyrstu umferð riðlakeppninnar í körfubolta á Ólympíuleikunum í París í dag.

Serbar byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu tíu af fyrstu tólf stigum leiksins. Bandaríkjamenn vöknuðu hins vegar fljótt til lífsins og náðu fimm stiga forskoti áður en fyrsta leikhluta lauk.

Bandaríska liðið jók forskot sitt jafnt og þétt og náði mest ellefu stiga forskoti í öðrum leikhluta. Serbar náðu áhlaupum, en Bandaríkjamenn héldu forystunni út hálfleikinn og leiddu með níu stigum þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 58-49.

Svipaða sögu er að segja af síðari hálfleik. Serbar héldu í við Bandaríkin, en bandaríska liðið hleypti Serbum aldrei of nálægt sér. Gott áhlaup Bandaríkjamanna í lok þriðja leikhluta gerði raun út um leikinn.

Bandaríska liðið hélt Serbum í skefjum í lokaleikhlutanum og niðurstaðan varð að lokum 26 stiga sigur, 110-84. Kevin Durant var stigahæsti maður vallarins með 23 stig fyrir Bandaríkin, en á eftir honum kom LeBron James með 21 stig, sjö fráköst og níu stoðsendingar.

Í liði Serba var Nikola Jokic atkvæðamestur með 20 stig fimm fráköst og átta stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×