Sport

Skipu­leggj­endur ÓL biðjast af­sökunar á at­riði á setningarhátíðinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Atriðið vakti misgóð viðbrögð.
Atriðið vakti misgóð viðbrögð. Skjáskot

Skipuleggjendur Ólympíuleikanna í París hafa beðist afsökunar á atriði sem var hluti af setningarhátíð leikanna sem fram fór síðastliðinn föstudag.

Í einu atriði setningarhátíðarinnar sátu dragdrottningar við borð og virtist uppsetningin minna mikið á málverk Leonardo Da Vinci af síðustu kvöldmáltíðinni. Þetta fræga málverk frá 15. öld sínir Jesú Krist sitja við borð með lærisveinum sínum.

Í atriðinu birtist einnig hálfnakinn maður sem átti að tákna gríska guðinn Díonýsos, eða Bakkus, guð víns, ölvunar, frjósemi og innblásturs.

Atriðið hlaut misgóð viðbrögð og voru margir sem gagnrýndu það. Meðal þeirra sem gagnrýndu atriðið voru meðlimir í kaþólsku kirkjunni í Frakklandi og sagði kirkjan meðal annars að atriðið væri „til marks um háð og spott á kristna trú.“

Þá sagðist fjarskiptafyrirtækið C Spire ætla að draga sig úr auglýsingasamningum við Ólympíuleikana og að fyrirtækið væri „hneykslað yfir háði síðustu kvöldmáltíðarinnar á opnunarathöfninni.“

Talsfólk Ólympíuleikana hefur nú beðist afsökunar á því að atriðið hafi móðgað fólk. Það hafi aldrei verið ætlunin og atriðið hafi ekki átt að tákna síðustu kvöldmáltíðina, heldur hafi það átt að vera tilvitnun í hollenskt málverk af guðum Ólympus.

„Það var augljóslega ekki ætlunin að vanvirða nokkurn trúarhóp,“ sagði Anne Descamps, talskona Ólympíuleikanna.

„Þvert á móti held ég að Thomas Jolly [listrænn yfirmaður setningarhátíðarinnar] hafi ætlað sér að fagna umburðarlyndi samfélagsins. Okkur finnst það hafa tekist. Ef einhverjir móðguðust þá biðjumst við að sjálfsögðu innilegrar afsökunar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×