Erlent

Einn látinn í mót­mælunum

Árni Sæberg skrifar
Eldur logar víða á götum Karakas.
Eldur logar víða á götum Karakas. Pedro Rances Mattey/Getty

Mótmælaalda geisar enn í Venesúela eftir að endurkjör Nicolasar Maduro forseta var staðfest á sunnudag. Einn hefur látið lífið í mótmælunum.

Stjórnarandstaðan undir forystu Mariu Corinu Machado sakar yfirvöld um kosningasvindl en meðlimum hennar var til að mynda meinaður aðgangur að höfuðstöðvum kjörstjórnar.

Machado fullyrðir að samkvæmt gögnum stjórnarandstöðunnar hafi Edmundo Gonzalez, mótframbjóðandi Maduros, sigrað kosningarnar með sjötíu prósent atkvæða gegn þrjátíu prósentum.

Í gærkvöldi hvatti hún Venesúelamenn, á samfélagsmiðlinum X, til þess að fjölmenna á götum úti í dag og sýna fram á vilja þjóðarinnar til þess að hvert atkvæði yrði látið telja og sannleikurinn varinn. Í frétt breska ríkisútvarpsins um málið segir að viðbúnaðar lögreglu og hers sé töluverður um allt Venesúela. Lögregla beiti táragasi og gúmmíkúlum á mótmælendur á götum Karakas, höfuðborg landsins.

Venesúelsku mannréttindasamtökin Foro Penal fullyrða að einn hið minnsta hafi þegar látið lífið í mótmælunum.


Tengdar fréttir

Maduro endurkjörinn í afar óeðlilegum kosningum

Nicolás Maduro hefur verið lýstur sigurvegari forsetakosninganna í Venesúela en stjórnarandstaðan segir þær hafa verið meingallaðar og boðað hefur verið til mótmæla.

Mikið undir í forsetakosningum Venesúela

Forsetakosningar fóru fram í Venesúela í dag. Kjörstöðum átti að loka klukkan tíu í kvöld að íslenskum tíma en standa víða enn opnir vegna þess að enn stendur fólk í röð og bíður eftir að fá að kjósa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×