Viðskipti innlent

Gistinóttum fjölgar í höfuð­borginni en fækkar annars staðar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ferðamenn á Grundarfirði fara yfir stöðu mála í símanum sínum.
Ferðamenn á Grundarfirði fara yfir stöðu mála í símanum sínum. Vísir/Vilhelm

Gistinætur á hótelum í júní voru tæplega 524.200 eða um þremur prósentum fleiri en á fyrra ári, 510 þúsund. Aukningin mælist einungis á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún var 20% á milli ára. Töluvert færri gistinætur mældust á hótelum í öðrum landshlutum.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands.

Mesta breytingin var á Austurlandi þar sem gistinóttum fækkaði á milli ára um 27 prósent og á Suðurnesjum um 17 prósent. 

Gistinætur erlendra ferðamanna voru 417.800, eða 80% af hótelgistinóttum, á meðan gistinætur Íslendinga voru 106.400 (20%). Fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna var á pari við fyrra ár en gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 15%.

Framboð hótelherbergja í júní jókst um 1,3% miðað við júní 2023. Á sama tíma dróst herbergjanýting á landinu saman um 6,0 prósentustig. Herbergjanýting dróst saman í öllum landshlutum nema Norðurlandi. Mesta breytingin var á Austurlandi (-20,6) og Vesturlandi og Vestfjörðum (-10,1).

Áætlaður heildarfjöldi gistinátta á öllum skráðum gististöðum í júní var um 1.099.800 sem er sambærilegt við júní 2023 (1.099.900).

Gistinætur erlendra ferðamanna í júní voru samkvæmt því um 77% gistinátta, eða um 846.100, sem er 1% fækkun frá fyrra ári (858.400). Gistinætur Íslendinga voru um 253.700 sem er 5% aukning frá júní í fyrra (241.500). Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 655.500 og um 444.300 á öðrum tegundum skráðra gististaða (íbúðagisting, orlofshús o.s.frv.).

Áætlað er að þar fyrir utan hafi óskráðar gistinætur erlendra ferðamanna í júní verið um 130.000 í gegnum vefsíður sem miðla heimagistingu og um 13.000 hjá vinum og ættingjum en að fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna í húsbílum hafi verið um 4.000.

Gistináttatölur fyrir skráða gististaði koma úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.

Allar tölur fyrir 2024 eru bráðabirgðatölur nema gistináttatölur hótela þar sem bráðabirgðatölur eru fyrir júní 2024.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×