Umræðan

Er hlut­verk Bitcoin að breytast?

Pétur Sigurðsson skrifar

Hvers vegna einhver ákveður að eiga Bitcoin getur oltið á ýmsu. Bitcoin getur haft mismunandi þýðingu fyrir hvern og einn. Framtíðarvæntingar til bálkakeðjunnar geta verið ólíkar, og sýn fólks einstaklingsbundin. Í gegnum tíðina hefur umræðan aðallega snúist um hvort Bitcoin sé rafræn verðmæti, gjaldmiðill fyrir verslun eða eitthvað allt annað. Það hefur sýnt sig að þó að Bitcoin sé ekki best til þess fallið að vera almennt greiðslukerfi fyrir heiminn – hlutverk sem rafmyntin þarf ekki að þjóna – þá hefur Bitcoin aðra eftirsótta eiginleika. Nýverið hefur Bitcoin fjarlægst það að vera rafrænn gjaldmiðill til hversdagslegar verslunar yfir í að vera verðmætaforði – fjárfesting og vörn gegn verðbólgu, ekki ósvipað gulli.

Hægt er að lýsa Bitcoin í dag sem vaxandi eignarflokki sem eykur verðgildi sitt eftir því sem það er meira notað. Ef Bitcoin er tekið í notkun sem eignarflokkur af stærri fjárfestingarsjóðum þá getur vöxturinn orðið töluverður samanborið við upphaflega fjárfestingu á verðlagi dagsins í dag. Bitcoin er núna notað af fáum samanborið við eignaflokka eins og gull, en sýn fjárfesta á gildi Bitcoin er að þróast. Margir telja að frekari notkun þess muni aukast og þar með verðgildi eignarflokksins.

Ein helsta gagnrýni á eignarflokkinn er óstöðugleiki í verði. Á hinn bóginn er hægt að færa rök fyrir því að þróun Bitcoin úr nánast óþekktu fyrirbæri í einn af stærstu eignarflokkum heims muni alltaf hafa í för með sér miklar verðsveiflur. Oft virðist vera tilhneiging hjá gagnrýnendum til þess að horfa á skammtímasveiflur frekar en langtímaþróun. Það er hugsanlegt að sveiflur muni einkenna Bitcoin áfram vegna þess að framboð myntarinnar er fullkomlega óskeikult og hinn alþjóðlegi fjármálamarkaðar, sem ákvarðar verðið, sefur aldrei. Það er hins vegar afar líklegt að áframhaldandi innleiðing rafmynta í fjárfestingasjóði muni hafa jákvæð áhrif á verðsveiflur.

Hægt er að lýsa Bitcoin í dag sem vaxandi eignarflokki sem eykur verðgildi sitt eftir því sem það er meira notað.

Möguleikar Bitcoin sem verðmætaforða er hægt að setja í samhengi með því að bera það saman við aðra eignaflokka sem notaðir eru í þeim tilgangi. Til að Bitcoin nái fótfestu sem vænlegur valkostur sem verðmætaforði þarf rafmyntin að ná svipaðri stöðu og sambærilegir eignaflokkar. Í dag er Bitcoin með um 8,5% af markaðsvirði gulls, 90% af markaðsvirði silfurs og hefur náð yfir 110% af markaðsvirði Facebook/Meta.

Það má því með sanni segja að hlutverk Bitcoin hefur breyst þegar nýjar útfærslur af hraðvirkari bálkakeðjum taka við keflinu sem hugsanlegur arftaki greiðslukerfis heimsins (ber að nefna Solana og Kaspa). Þá er Bitcoin að tryggja sig í sessi sem vænlegasta myntin til varðveislu verðmæta. Hafa nýlegar vendingar í málum kauphallarsjóða um allan heim sannað það – og viðhorf stjórnvalda er smám saman að verða jákvæðara. Það eru því spennandi tímar og mörg tækifæri framundan sem vert er að skoða af alvöru.

Höfundur er stofnandi ismynt.is






×