Erlent

Við­vörun gefin út vegna úlfs sem beit stúlku og drap púðluhund

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hegðun úlfsins er sögð óvenjuleg en þeir forðast fólk almennt.
Hegðun úlfsins er sögð óvenjuleg en þeir forðast fólk almennt. Getty

Yfirvöld í Hollandi hafa gefið út viðvörun til fólks með ung börn um að heimsækja ekki skóglendi nærri þorpinu Austerlitz, um það bil 16 kílómetra austur af Utrecht.

Ástæðan eru nokkur tilvik þar sem úlfur virðist hafa komið við sögu og meðal annars bitið barn og velt öðru um koll. Barnið sem datt sakaði ekki en erfðarannsókn staðfesti að dýrið sem beit stúlkuna hefði verið úlfur.

Umrætt svæði, Utrechtse Heuvelrug, er vinsælt meðal göngu-, hlaupa- og hjólafólks.

Úlfar fóru að sjást á ný í Hollandi árið 2015 eftir að hafa verið fjarri góðu gamni í um 150 ár. Nokkrir tugir hafa sést síðan en dýrin eru sögð forðast fólk almennt.

Talið er að ofangreind atvik séu tengd dýri sem drap púðluhund fyrr í júlí og segja sérfræðingar hegðun úlfsins „ódæmigerða og truflandi“. Unnið er að því að heimila að dýrið verði skotið.

Yfirvöld í Utrecht hafa biðlað til fólks um að gá sérstaklega vel að sér þegar það heimsækir svæðið og þá er fólki ráðlagt að taka ekki lítil börn með sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×