Veður

Byrjar að rigna fyrir norðan en dregur úr vætu fyrir sunnan

Kjartan Kjartansson skrifar
Enn á að rigna á höfuðborgarsvæðinu framan af morgni í dag en svo er spáð stöku skúrum. Myndin er úr safni.
Enn á að rigna á höfuðborgarsvæðinu framan af morgni í dag en svo er spáð stöku skúrum. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Spáð er rigningu norðanlands en minnkandi vætu sunnan heiða í dag. Við upphaf verslunarmannahelgar er útlit fyrir rigningu í flestum landshlutum og stífri austan- og norðaustanátt.

Skil lægðar suðvestur af landinu þokast norður yfir landið í dag. Þrátt fyrir að dragi úr vætu á sunnanverðu landinu er enn spáð stöku skúrum þar síðdegis. Spáð er norðaustan kalda eða stinningskalda norðvestantil en annars hægari vindi og hita frá átta til sextán stig.

Lægðin verður komin suður fyrir land á morgun og þá á að ganga í stífa austan- og norðaustanátt. Á Suðaustur- og Austurlandi er spáð nokkuð samfelldri rigningu en dálítilli vætu fyrir norðan og vestan. Síðdegis á að rigna í flestum landshlutum, töluvert mikið austast á landinu samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings á vefsíðu Veðurstofu Íslands.

Annað kvöld á að draga úr vætunni víðast hvar en þá bætir í vind syðst. Þannig er útlit fyrir austan hvassviðri á aðfararnótt og fyrri part laugardags, þar á meðal í Vestmannaeyjum. Draga á úr vindi eftir því sem líður á daginn. Dálítilli vætu er spáð með köflum víða um land en lengst af þurru og sæmilega hlýju á vesturhluta landsins og innsveitum á Norðurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×