Um er að ræða niðurstöður sem 27 vísindamenn hafa birt í Lancet en þeir segja að með því að forðast umrædda áhættuþætti sé hægt að koma í veg fyrir eða seinka 45 prósent Alzheimers-tilvika, jafnvel þótt fólk sé almennt að lifa lengur.
Niðurstöðurnar voru fyrst kynntar á alþjóðlegri ráðstefnu Alzheimer's Association í Bandaríkjunum en áætlað er að fjöldi einstaklinga með Alzheimers muni þrefaldast og verða 153 milljónir árið 2050.
Kostnaður við sjúkdóminn á heimsvísu er áætlaður yfir billjón Bandaríkjadala.
„Margt fólk um allan heim heldur að heilabilun (e. dementia) sé óumflýjanleg en hún er það ekki,“ segir Gill Livingston, sem fór fyrir rannsókninni. „Niðurstöður okkar eru þær að þú getur stóraukið líkurnar á að þróa ekki með þér heilabilun eða að fresta henni.“
Current projections estimate 153 million people will be living with dementia by 2050.
— The Lancet (@TheLancet) July 31, 2024
Nearly half of dementia cases could be prevented or delayed by tackling 14 risk factors starting in childhood, suggests new report from a standing Lancet Commission: https://t.co/ZFRBBbIfdZ pic.twitter.com/fRA8WYcUVH
Livingston segir aldrei of seint að grípa til aðgerða en segja má að skipta megi áhættuþáttunum í tvo flokka; annars vegar þá sem einstaklingar geta haft áhrif á og hins vegar þá þar sem samfélagið eða yfirvöld þurfa að grípa inn í.
Tólf áhættuþættir hafa verið þekktir frá 2020 eða lengur; lágt menntastig, heyrnaskerðing, háþrýstingur, reykingar, offita, þunglyndi, ónóg hreyfing, sykursýki, ofneysla áfengis, heilaskaði, loftmengun og félagsleg einangrun.
Þessir þættir tengjast samtals um 36 prósent Alzheimers-tilvika.
Þá hafa vísindamenn borið kennsl á tvo til viðbótar; hátt „slæmt“ kólesteról, sem er til staðar í 7 prósent tilvika, og ómeðhöndluð sjónskerðing seinna á lífsleiðinni, sem er til staðar í 2 prósent tilvika.
Vísindamennirnir hafa lagt til ýmsar aðgerðir til að stuðla að færri Alzheimers-tilvikum, meðal annars aukið aðgengi að heyrnatækjum og meðferð gegn háu kólesteróli frá fertugu. Þá hvetja þeir til þess að börn fái almennilega menntun og að fólk gæti að því að halda hugastarfseminni við.
Hér má finna umfjöllun Guardian um málið.