Skoðun

Af drag­drottningum og grát­kórum

Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

Árið 2000 var haldið upp á lok Ólympíuleikanna í Sidney með stórri hátíð á Ólympíuleikvanginum. Þar mátti meðal annars sjá furðuleg farartæki á hlaupabrautinni, en það voru raunar risavaxnir glitrandi hælaskór á hjólum. Tilefni atriðisins var að heiðra hina stórkostlegu áströlsku kvikmynd The Adventures of Priscilla, Queen of the Desert sem komið hafði út sex árum áður.

Ástæða þess að ég nefni þetta núna, 24 árum síðar, er sú staðreynd að í hverjum rúllandi hælaskó í Sydney stóð dragdrottning. Man einhver eftir því? Líklega eru það fáir, í ljósi þess að engin sérstök umræða fór fram um þetta ágæta atriði.

Hraðspólum nú til ársins í ár þegar dragdrottningar voru aftur hluti hátíðarhalda í tengslum við Ólympíuleika, í þetta skipti í opnunaratriði leikanna. Vísað var í forn-gríska menningu, Díonýsus kom við sögu og þekktar dragdrottningar voru áberandi. Í kjölfarið upphófst hávær grátkór íhaldssams fólks á Vesturlöndum, meðal annars á Íslandi. Hann varð raunar svo hávær að Ólympíuleikarnir báðust afsökunar á því að einhverjir skyldu hafa móðgast vegna þess að þeir héldu (ranglega) að um vísun í málverk af síðustu kvöldmáltíð Krists væri að ræða.

Það er furðulegt hvað ákveðnum hópi fólks er agalega umhugað um málfrelsi alveg þar til hinsegin fólk fær að njóta þess.

Hinsegin fólk, í öllum sínum fjölbreytileika, hefur verið hluti af mannlegu samfélagi alla tíð. Öfgakennd viðbrögð fólks við þessu svokallaða ‘vók’ Ólympíuatriði eru afhjúpandi fyrir stöðu hinsegin fólks í opinberri umræðu á Vesturlöndum þessa dagana. Tilvist okkar virðist vera orðin stuðandi í sjálfri sér, sýnileiki okkar er gerður pólitískur og fólkið sem tekur ákvarðanir um að við fáum að sjást biðst síðan afsökunar á því að hafa gert það.

Það er fullt tilefni til þess að staldra við.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Samtökunum ‘78.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×