Innlent

„Covid virðist vera komið til að vera“

Jón Þór Stefánsson og Árni Sæberg skrifa
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir að samfélagið verði að læra að lifa með Covid.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir að samfélagið verði að læra að lifa með Covid. Vísir/Vilhelm

Fyrir um tveimur vikum var greint frá því að Landspítali hefði gripið til aðgerða vegna fjölda Covidsmitaðra inni á spítalanum og í samfélaginu í heild. Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir ástandið hafa skánað síðan þá.

Hún segir erfitt að segja til um það hverju sé að þakka að smituðum hafi fækkað.

„Svona sýkingar koma í bylgjum. Þetta er náttúrulega smitandi þannig þetta dreifist um og svo gengur það niður. Þetta var svolítið skarpur toppur. Þannig að vonandi var þetta að hluta til vegna þess að spítalinn gat komið í veg fyrir frekari útbreiðslu hjá sér. En þetta er held ég eðlilegur gangur í samfélaginu. Við höfum séð bylgjur af Covid á sumrin. Þannig vonandi verður ekki meira af þessu núna.“

Mörgum brá í brún þegar tilkynnt var að grípa þyrfti til aðgerða á Landspítalanum vegna Covid. Guðrún segir ekki þurfa að óttast að gripið verði til allsherjaraðgerða.

„Það er annað mál í samfélaginu þegar fólk smitast og er jafnvel með væg einkenni, og getur haldið sig heima. Þetta er ekki af sama toga. Þannig það er alveg eðlilegt að spítalinn grípa til annara aðgerða heldur en eigi endilega við í samfélaginu um tíma.“

Loks minnir Guðrún á að Covid er ekki alveg búið.

„Covid virðist vera komið til að vera. Við verðum að læra að lifa með því. Bólusetningar og almennar sóttvarnir eru okkar aðalvörn. Við hvetjum fólk til að taka þátt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×