Sport

Biles vann enn eitt Ólympíugullið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Simone Biles með gullmedalíuna sína.
Simone Biles með gullmedalíuna sína. getty/Jamie Squire

Bandaríska fimleikakonan Simone Biles vann í dag til gullverðlauna í fjölþraut á Ólympíuleikunum í París. Þetta er sjötta Ólympíugull Biles og önnur gullverðlaunin sem hún vinnur í París.

Biles vann liðakeppnina með stöllum sínum í bandaríska landsliðinu í fyrradag og fylgdi því svo eftir með því að vinna fjölþrautina í dag.

Biles gerði smá mistök á tvíslá en æfingar hennar voru annars skotheldar. Hún fékk 15.066 í einkunn fyrir gólfæfingar og þá var ljóst að hún myndi bera sigur úr býtum.

Rebeca Andrade frá Brasilíu veitti Biles harða keppni en varð að játa sig sigraða. Hún fékk samtals 57.932 í einkunn en Biles 59.131. Í 3. sæti varð svo landa Biles, Sunisa Lee, með 56.465 í heildareinkunn.

Biles fékk hæstu einkunn fyrir gólfæfingar (15.066), stökk (15.766) og jafnvægisslá (14.566) en Kaylia Nemour frá Alsír fékk hæstu einkunn fyrir æfingar á tvíslá (15.533).

Biles getur enn bætt fleiri medalíum í safnið í keppni á einstökum áhöldum. Hún keppir í öllu nema tvíslá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×