Sport

Tvö hundruð þúsund smokkar í ólympíu­þorpinu: „Ekki deila öðru en sigrinum“

Aron Guðmundsson skrifar
Frá ólympíuþorpinu sem er að finna í París. 
Frá ólympíuþorpinu sem er að finna í París.  Vísir/Getty

„Ekki deila öðru en sigrinum, verðu þig fyrir kynsjúkdómum,“ stendur á um­búðum smokka sem kepp­endur í ólympíu­þorpinu á Ólympíu­leikunum í París geta nálgast sér að kostnaðar­lausu. Alls hafa yfir tvö hundruð og tuttugu þúsund smokkar verið gerðir að­gengi­legir fyrir í­þrótta­fólk á Ólympíu­leikunum í ólympíu­þorpinu þetta árið.

Um 14.500 kepp­endur halda til í þorpinu á meðan á leikunum stendur. Ef smokkunum yrði dreift jafnt yfir keppnis­daga leikana myndi það þýða að hver keppandi gæti nýtt sér tvo smokka á dag.

Smokkarnir sem er að finna á víð og dreif í Ólympíuþorpinu í ParísVísir/Getty

Fjöldi þeirra smokka sem standa kepp­endum til boða í Ólympíu­þorpinu hefur þó dregist veru­lega saman frá því á Ólympíu­leikunum í Río de Janeiro árið 2016. Þá voru þeir alls 450 þúsund talsins sem er met í sögu Ólympíu­leikanna.

Það að gera kepp­endum á Ólympíu­leikunum kleift að nálgast smokka í ólympíu­þorpinu á meðan á leikunum stendur þeim að kostnaðar­lausu er á­kvörðun sem tekin var og hefur verið við lýði síðan á Ólympíu­leikunum í Barcelona árið 1992.

„Það sem gerist í Ólympíu­þorpinu, fer ekki út fyrir þorpið,“ hefur fyrr­verandi sund­konan og ólympíu­farinn Sum­mer Sanders látið hafa eftir sér. Hún skilur vel á­huga fólks á því hvernig lífið sé í Ólympíu­þorpinu. „Þetta er rómantísk hug­mynd. Að þetta kyn­þokka­fulla í­þrótta­fólk, á sínu besta skeiði, sé að stinga saman nefjum. Ég get skilið af hverju það sprettur upp um­ræða um þetta.“

Papparúmin áhugaverðu sem er að finna í ólympíuþorpinuVísir/Getty

Líkt og frægt er orðið eru rúmin í Ólympíu­þorpinu úr pappa og hefur það heyrst úr ranni kepp­enda að þau myndu þar af leiðandi ekki geta staðið af sér þá "krafta" sem kyn­líf felur í sér.

Írski fim­leika­kappinn Rhys McC­lenag­han á­kvað hins vegar að hrekja þær kenningar sumra kepp­enda og birti mynd­skeið af sér frá Ólympíu­þorpinu þar sem að hann lætur reyna á styrk pappa­rúmsins með því að hoppa og skoppa á því. Rúmið féll ekki saman.

„Ég var mara­þon­hlaupari og þar af leiðandi veit ég hversu mikil­vægt það er að ná góðum nætur­svefni fyrir keppni,“ segir hinn japanski Motokuni Taka­oka sem er hönnuðurinn á bak við pappa­rúmin í Ólympíu­þorpinu.“

„Þessi rúm geta vel þolað tvo til þrjá ein­stak­linga án þess að það þurfi að hafa nokkrar á­hyggjur af því að það falli saman. Þau eru mjög sterk og þola allt það sem kepp­endur vilja gera einir með sjálfum sér eða vinum sínum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×