Skoðun

Ekki frekari þjáningar takk!

Ragnar Schram skrifar

Börn eru ekki ábyrg fyrir þeim átökum og ófriði sem nú skekja löndin fyrir botni Miðjarðarhafs. Samt þjást þau vegna ástandsins og djúp sár hafa myndast á sálir barnanna – sem dýpka enn. Ekki þarf að tíunda um öll þau ungu saklausu líf sem hafa týnst í þessu brjálæði öllu.

SOS Barnaþorpin sjá fyrir fjölda munaðarlausra og yfirgefinna barna í þessum löndum og mörg þeirra eiga íslenska SOS foreldra sem greiða framfærslu barnanna og umönnun. Við höfum þegar þurft að flytja tugi þeirra barna sem við berum ábyrgð á frá Gaza á öruggari stað á Vesturbakkanum. Enn sjáum við þó fyrir börnum á Gaza og munum gera áfram.

Vaxandi ólga á svæðinu síðustu daga hefur aukið líkurnar á því að börnin okkar í Líbanon þurfi líka að yfirgefa heimili sín til að fara á öruggari stað. Og börnin okkar í Ísrael búa sig undir lengri dvöl í neyðarskýlum en þau eru vön.

SOS Barnaþorpin í Palestínu, Ísrael og Líbanon vinna saman að velferð barnanna og hafa aukið útgjöld til sálfræði- og áfallahjálpar fyrir börn undanfarnar vikur og mánuði. Mörgum börnunum líður mjög illa og þurfa mikla hjálp.

Í ljósi þessa vilja SOS Barnaþorpin ítreka yfirlýsingu samtakanna frá því í október á síðasta ári og biðla m.a. til íslenskra stjórnvalda að beita þeim áhrifum sem þau geta:

„Hækkandi tala látinna og yfirvofandi mannúðarkrísa krefjast þess af öllum hlutaðeigandi aðilum að taka tafarlaust, skref í átt að því að vernda almenna borgara og ljúka þessu stríði. Ekkert réttlætir dráp, árásir og ofbeldi gegn almennum borgurum. SOS Barnaþorpin kalla eftir vopnahléi tafarlaust."

Höfundur er framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Ole Anton Bieltvedt skrifar

Sjá meira


×