Lífið

Brekkusöngur á Flúðum og á Vísi: Lofar sól og sumri beint heim í stofu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Gunni Óla reynslubolti með meiru og liðsmaður Skítamórals mun stýra Brekkusöngnum á Flúðum.
Gunni Óla reynslubolti með meiru og liðsmaður Skítamórals mun stýra Brekkusöngnum á Flúðum.

Stuðboltinn, gítarleikarinn og söngvarinn Gunnar Ólason mun leiða Brekkusöng á Flúðum á sunnudagskvöldið. Brekkusöngurinn verður í beinni útsendingu á Vísi, Stöð 2 Vísi og á Bylgjunni og hefst klukkan 21:00.

„Þessi hátíð hefur verið haldin í nokkur ár og það eiginlega verður ekki meira pepp, geggjað að fá að mæta, gera gott mót í Brekkusöng og taka svo ball á eftir,“ segir Gunni í samtali við Vísi. Hann segist hafa hugsað vel og lengi hvað lög hann ætli að taka og lofar sannkölluðum stuðlögum sem allir þekkja.

Það verður þétt dagskrá á Flúðum um helgina þar sem traktoratorfæra og sláttutraktoratorfæra verður á sínum stað í Torfdal á laugardegi, svo fátt eitt sé nefnt. Stuðlabandið leikur fyrir dansi á laugardagskvöld og svo verða Gunni og félagar í Skítamóral með ball á sunnudagskvöldið.

„Maður bíður bara spenntur eftir því að fá að vera á Íslandi í sumar og sól þessa helgi,“ segir Gunni hlæjandi en eflaust hefur ekki farið framhjá neinum að sumarið hingað til hefur verið vætusamt og tvísýn veðurspá fyrir helgina, þó sunnudagurinn virðist munu líta vel út víðast hvar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×