Sport

Ólympíufari sem á ekki fyrir leigu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Fraley fagnar bronsi í undankeppni fyrir ólympíuleikana í ár.
Fraley fagnar bronsi í undankeppni fyrir ólympíuleikana í ár. getty

Bandaríski kringlukastarinn Veronica Fraley keppir í kvöld í kringluvarpi á Ólympíuleikunum í París. Hún vakti hins vegar athygli á því á samfélagsmiðlum að þrátt fyrir að skara fram úr í sinni íþróttagrein hefur hún enn ekki efni á leigu heima fyrir.

Farley vakti máls á þessari stöðu á X í gærkvöldi. 

„Ég keppi á Ólympíuleikunum Á MORGUN og get ekki einu sinni borgað leiguna mína. Skólinn sendi mér um 75 prósent af leigunni á meðan þeir borga ruðningsleikmönnum (sem hafa ekki unnið nokkurn skapaðan hlut) nóg til þess að kaupa nýja bíla og hús.“

Það stóð ekki á viðbrögðunum við þessari færslu Fraley í gær. Skömmu síðar hafði bandaríski rapparinn Flavor Flav boðist til þess að borga leiguna. Þá bauðst Alexis Ohanian annar stofnenda samfélagsmiðilsins Reddit til þess að borga leigu hennar út árið. 

Fraley stundar nú framhaldsnám við Vanderbilt háskólann í Nashville í Tennessee.

„Ég sé um þetta,“ skrifaði Flav við færslu Fraley. „Sendu mér skilaboð og ég sendi greiðslu í dag þannig þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af þessu á morgun. Og held með þér á morgun, KOMA SVO!“ skrifaði Flav sömuleiðis. 

„Svona nú! Ég borga á móti Flavor,“ skrifaði Ohanian. Þeir birtu báðir skjáskot sem sýna millifærslur til Fraley. 

Síðar birti Fraley aðra færslu á X þar sem hún áréttir að kvörtunin hafi ekkert með háskóla sinn að gera. Hún sé aðeins að kvarta yfir reglum sem geri það að verkum að hún fái ekki jafn mikið greitt og hún sé virði.

Fraley keppir í kringlukasti í kvöld klukkan 18:20. Úrslit í kringlukasti fara fram á mánudag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×