Körfubolti

Mikil á­nægja með nýju styttuna af Kobe og Gigi Bryant

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vanessa Bryant ásamt dætrum sínum Nataliu, Biönku og Capri en þær eru fyrir framan nýju styttuna af Kobe og Gigi.
Vanessa Bryant ásamt dætrum sínum Nataliu, Biönku og Capri en þær eru fyrir framan nýju styttuna af Kobe og Gigi. @lakers

Ný stytta af bandaríska körfuboltamanninum Kobe Bryant og dóttur hans Gianna „Gigi“ Bryant var afhjúpuð við einkaathöfn í Los Angeles í gær. Hún verður síðan fyrst aðgengileg almenningi í dag.

Styttan er fyrir utan Crypto.com Arena, heimavallar NBA körfuboltaliðsins Los Angeles Lakers, og var frumsýnd 2. ágúst 2024 eða 8/2/24 eins og Bandaríkjamenn segja dagsetninguna.

Mikilvægi 2, 8 og 24

Kobe spilaði í treyjum númer 8 og 24 á sínum ferli en Gigi var alltaf númer 2.

Eins og flestir vita þá fórust feðginin í þyrluslysi í janúar 2020 ásamt sjö öðrum en í þyrlunni voru körfuboltastelpur og foreldrar þeirra á leið á körfuboltamót.

Þetta er önnur af þremur styttum af Los Angeles Lakers goðsögninni. Fyrsta styttan var tæplega sex metra há stytta af honum til að minnast leiksins á móti Toronto Raptors þegar hann skoraði 81 stig.

Táknræn fyrir samband feðginanna

Mikil ánægja er með styttuna eftir að myndir af henni komust á flug á netmiðlum. Vanessa Bryant segir að hún sé mjög táknræn fyrir samband feðginanna.

„Við sameinuðum tvö móment af Kobe og Gigi. Gianna er þarna með yndisfagra brosið sitt og Kobe er að kyssa hana á höfuðið. Hann er með Philadelphia Eagles húfuna sem Gigi gaf honum í jólagjöf. Hann er líka í appelsínugulu WNBA hettupeysunni sem hann var í á leik sem þau fóru á saman, sagði Vanessa Bryant, ekkja Kobe, í fréttatilkynningu.

Í WNBA hettupeysu

„Kobe var fyrsti NBA leikmaðurinn til að vera í þessari WNBA peysu en það gerði hann til að styðja við drauminn hennar Gigi og til sýna öllum kvennaíþróttum stuðning. Þetta var falleg stund sem þau tvö áttu saman en er líka táknræn fyrir gildin í okkar fjölskyldu þar sem jöfnuður er okkur svo mikilvægur, sagði Vanessa

Þriðja og síðasta styttan verður frumsýnd á næsta tímabili en Vanessa segir að þar verðir Kobe í Lakers treyju númer 24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×