Erlent

Hætt við sam­komu­lag við höfuð­paur hryðju­verkanna 11. septem­ber

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Khalid Sheikh Mohammed var handsamaður í Pakistan árið 2003.
Khalid Sheikh Mohammed var handsamaður í Pakistan árið 2003. CIA

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur dregið til baka samkomulag sem gert var við Khalid Sheikh Mohammed sem sakaður eru um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverkaárásirnar á Tvíburaturnana þann 11. september 2001. Áður hafði verið greint frá því að samkomulag væri í höfn við mennina um að játa aðkomu sína að árásunum gegn því að verða ekki dæmdir til dauða.

Það kom fram í minnisblaði sem ráðherrann sendi Susan Escallier sem hefur yfirumsjón með málinu gegn Mohammed en samkomulagið hafði verið gagnrýnt af aðstandendum fórnarlamba árásarinnar sem og háttsettum embættismönnum.

Ráðherrann segist hafa nýtt sér rétt sinn til að hnekkja samkomulaginu vegna þess hve mikið er í húfi. Hann segir að það sé réttast að meðferð málsins sé í höndum hans en Mohammed og tveir aðrir hafa sætt fangelsisvist í Guantanamo-flóa í nær tvo áratugi.

J.D. Vance, varaforsetaefni Donald Trump, gagnrýndi samkomulagið harðlega ásamt Mitch McConnell þingflokksforseta Repúblikanaflokksins.

Alls létust 2.996 þegar farþegaþotum var flogið á Tvíburaturnana í New York og Pentagon, auk þess sem farþegaþota brotlenti á akri í Pennsylvaníu eftir mótspyrnu farþega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×