Sport

Um­deilda hnefa­leika­konan grét eftir að hún tryggði sig inn í undan­úr­slitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Imane Khelif átti erfitt með að stjórna tilfinningunum eftir að sigurinn var í höfn.
Imane Khelif átti erfitt með að stjórna tilfinningunum eftir að sigurinn var í höfn. Getty/Richard Pelham

Alsírska hnefaleikakonan Imane Khelif átti ekki í miklum vandræðum með að tryggja sér sæti í undanúrslitunum í 66 kílóa flokki kvenna á Ólympíuleikunum í París.

Khelif vann öruggan sigur á hinni ungversku Luca Anna Hamori.

Sú alsírska brotnaði niður og grét eftir að sigurinn var í höfn. Það hefur verið mikil og ósanngjörn pressa á henni síðustu daga enda hún óumbeðið miðpunktur mikils fjölmiðlafárs.

Mikið hefur verið rætt og skrifað um þátttöku Khelif þar sem Alþjóðahnefaleikasambandið vísaði henni úr keppni á síðasta heimsmeistaramóti fyrir það í rauninni að vera karlmaður í kvennakeppni. Khelif stóðst ekki kynjapróf Alþjóðahnefaleikasambandsins (IBA) sem skipuleggur HM.

IBA kemur hins vegar ekki lengur að skipulagningu hnefaleikakeppninnar á Ólympíuleikunum þar sem Khelif má keppa. Alþjóðaólympíunefndin hefur gagnrýnt útilokun Khelifs frá HM harðlega og segir að samkvæmt öllum mælikvörðum þeirra sé hún kona.

Ríkjandi Ólympíumeistari, Busenaz Surmeneli frá Tyrklandi, var slegin út í átta manna úrslitunum. Janjaem Suwannapheng frá Tælandi vann hana. Sú tælenska mætir einmitt Khelif í undanúrslitabardaganum sem fer fram 6. ágúst næstkomandi.


Tengdar fréttir

Carini vill biðja Khelif afsökunar

Ítalska hnefaleikakonan Angela Carini, sem bað um að bardagi sinn á Ólympíuleikunum gegn hinni alsírsku Imane Khelif yrði stöðvaður eftir aðeins 46 sekúndur, vill nú biðja hana afsökunar á framferði sínu.

Utan vallar: Þegar mektarfólk lætur sig kvennaíþróttir varða

Stórfurðulegt mál frá Ólympíuleikunum í París er skyndilega eitt það umtalaðasta er varðar íþróttir kvenna í áraraðir. Sjaldan hafa samfélagsmiðlar blásið eins mikið upp í kringum einvígi á íþróttavelli sem stóð í 46 sekúndur. Og umræðan að stóru leyti byggð á ranghugmyndum og ósannindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×