Sport

Alfred vann Sha'Carri og gullið í 100 metra hlaupi kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julien Alfred fagnar gullinu en með henni eru silfurkonan Sha'Carri Richardson og bronskonan Melissa Jefferson.
Julien Alfred fagnar gullinu en með henni eru silfurkonan Sha'Carri Richardson og bronskonan Melissa Jefferson. Getty/Cameron Spencer

Julien Alfred varð í kvöld Ólympíumeistari í 100 metra hlaupi kvenna í París en hún varð þar með fyrst allra til að vinna verðlaun fyrir Sankti Lúsíu á Ólympíuleikum.

Sankti Lúsía er eldfjallaeyja í Litlu-Antillaeyjaklasanum rétt fyrir norðan Suður-Ameríku. Þar búa aðeins um 180 þúsund manns. Það er því mikill sigur fyrir þessa litlu þjóð að eignast Ólympíumeistara og það í einni stærstu grein leikanna.

Alfred bætti sig í úrslitahlaupinu og vann þar yfirburðasigur á 10,72 sekúndum.

Það var búist við miklu af hinni bandarísku Sha'Carri Richardson en hún varð að sætta sig við annað sætið í hlaupinu.

Bronsið fór síðan til hinnar bandarísku Melissu Jefferson.

Shelly-Ann Fraser-Pryce frá Jamaíku tók ekki þátt í undanúrslitahlaupinu og það var ekki af því að hún er meidd.

Samkvæmt fyrstu fréttum þá var henni ekki hleypt inn á upphitunarsvæðið af því að hún kom ekki að réttu hliði. Richardson lenti einnig í sömu stöðu en ákvað að keppa.

Fraser-Pryce yfirgaf hins vegar svæðið og hljóp ekki. Richardson náði sér ekki á strik og var ekki lík sjálfri sér.

Það er öruggt að þetta mál mun draga dilk á eftir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×